Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eldsneytiskerfið virkaði þrátt fyrir viðvörun

01.07.2022 - 11:22
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Eldsneytiskerfi farþegaflugvélar Play air, sem fékk viðvörun um skort á eldsneyti um miðjan júní á leið til Keflavíkur frá Malaga á Spáni, starfaði eðlilega. Þetta sýna bráðabirgðaniðurstöður Rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Rautt hættustig var virkjað á Keflavíkurflugvelli og þúsund manns voru í viðbragðstöðu þegar vélin fékk viðvörun um skort á eldsneyti. Vélin er af gerðinni Airbus 320.

Ein viðvörunin sem flugmenn fengu gaf til kynna að eldsneyti streymdi ekki milli tanka í vélinni, sem það svo gerði eftir að vélin hóf lækkun til lendingar. Vélin lenti heilu og höldnu á Keflavíkurflugvelli með rúmlega 100 manns innanborðs. Þorkell Ágústsson hjá rannsóknarnefndinni segir að þótt eldsneytiskerfið hafi staðið á sér hafi vélin alltaf haft nægt eldsneyti til að lenda.

Lokaniðurstaða nefndarinnar verður birt í haust.