Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Aðild Úkraínu að ESB handan við hornið

01.07.2022 - 09:37
epa10041295 EU Commission's President Ursula von der Leyen takes part in a meeting during the first day of the NATO Summit at IFEMA Convention Center, in Madrid, Spain, 29 June 2022. Heads of State and Government of NATO's member countries and key partners are gathering in Madrid from 29 to 30 June to discuss security concerns like Russia's invasion of Ukraine and other challenges. Spain is hosting 2022 NATO Summit coinciding with the 40th anniversary of its accession to NATO.  EPA-EFE/Lavandeira Jr
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Evrópusambandið tók formlega við aðildarumsókn Úkraínu í morgun. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, tilkynnti úkraínska þinginu í morgun að aðild að sambandinu væri innan seilingar en hraða þyrfti úrbótum sem vinni gegn spillingu.

„Stofnanir ESB hafa unnið dag og nótt að því að styðja ykkur en það er ykkar átak sem varð til þess að verkið vannst. Þið öfluðuð ekki aðeins stuðnings frá stofnunum ESB heldur nýttuð þá krafta sem til staðar eru í landinu ykkar,“ segir von der Leyen.

„Þið höfðuð samband við þúsundir sérfræðinga, bæði hjá hinu opinbera og háskólasamfélaginu. Vegna þessa átaks hafið þið aflað ykkur stuðnings og virðingar allra Evrópusambandsríkjanna. Þetta er til merkis um traust. Úkraína hefur nú skýra evrópska heildarsýn og Úkraína er umsóknarríki um aðild að Evrópusambandinu.“ 

Hún þrýsti jafnframt á að hraðað verði úrbótum sem vinni gegn spillingu. Stofnunum hafi verið komið á fót til þess en þær þurfi að vera nógu áhrifamiklar og hafa rétta fólkið við stjórnvölinn.

Úkraína sótti um aðild fimm dögum eftir að rússneski herinn réðist inn í landið. Öll 27 aðildarríki Evrópusambandsins samþykktu umsókn Úkraínu 23. júní. 

 

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, sagði í ávarpi sínu í þingi landsins að nýr kafli væri að hefjast í sögu ríkisins og Evrópusambandsins. Það væri mikill heiður og ábyrgð að vinna að því að láta væntingar ríkisins verða að veruleika. Það hafi tekið 115 daga að ná því að verða umsóknarríki og aðildarferlið ætti ekki að taka áratugi. 

 

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV