Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks samþykkt

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráð Íslands - Reykjavík Pride
Alþingi samþykkti fyrir þinglok um miðjan júní fyrstu aðgerðaáætlunina í málefnum hinsegin fólks, í samræmi við þingsályktunartillögu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Áætlunin var samþykkt samhljóða af þingheimi og gildir fyrir tímabilið 2022 til 2025. Þetta er fyrsta áætlun sinnar tegundar hérlendis sem eingöngu snýr að málefnum hinsegin fólks.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur fram að helsta markmiðið með áætluninni sé að stuðla að framförum og réttarbótum fyrir hinsegin fólk og stuðla að vitundarvakningu um stöðu hinsegin fólks á Íslandi. 

Sjá einnig: Ísland upp í níunda sætið á Regnbogakortinu

Regnbogakort ársins 2022

Í maí var greint frá því að Alþjóðasamtök hinsegin fólks í Evrópu hafi staðsett Ísland í níunda sæti á Regnbogakorti ársins 2022, mælikvarða á því hversu vel réttindi hinsegin fólks eru tryggð í ríkjum álfunnar. Ísland fór upp um fimm sæti frá síðasta lista. 

Liður í nýju aðgerðaáætluninni og eitt af meginmarkmiðum hennar er að þoka Íslandi enn ofar á Regnbogakortinu.

Framkvæmdasjóður hinsegin málefna hefur samhliða verið stofnaður og fær 40 milljónir króna á tímabilinu. Sjóðnum er ætlað að veita fjármunum til verkefna sem styðja við brýn málefni hinsegin fólks. 

Skrifstofa jafnréttis- og mannréttindamála í forsætisráðuneytinu mun hafa eftirlit með framfylgd verkefna í áætluninni og birta stöðu aðgerða á myndrænan hátt í sérstöku mælaborði. Fyrirmynd að mælaborðinu má finna í framkvæmdaáætlun um jafnréttismál og forvarnaráætlun gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, segir á vef Stjórnarráðsins.