Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Umdeildar eða úreltar hvalveiðar Íslendinga

Hvalveiðiskipið Ísland kemur með hvali til hvalstöðvarinnar á Fögrueyri við Fáskrúðsfjörð árið 1904 eða 1905. Ljósmyndari óþekktur.
 Mynd: Hvalveiðiskipið Ísland - Skjalasafn Neskaupstaðar
Heiða Kristín Helgadóttir, fyrrverandi pólitíkus og núverandi fiskútflytjandi, segir hvalveiðar Íslendinga skaðlega tímaskekkju sem gæti sprungið í andlitið á okkur. Þær séu til marks um dugleysi stjórnmálamanna sem hér ráða. Heiða Kristín fullyrðir að veiðarnar skaði íslenskan sjávarútveg og dæmi séu um fyrirtæki sem missi viðskipti vegna þess að Íslendingar eru meðal örfárra þjóða heims sem veiða hvali. Heiða Kristín er gestur Þetta helst, þar sem fjallað er um hvalveiðar.

Hvalveiðar eru hafnar á ný eftir fjögurra ára hlé. Hvalveiðimenn segja markaðina betri en áður og vísindamenn fullyrða að stofnarnir standi vel.

Þetta helst um hvalveiðar má nálgast hér 

Nýleg könnun Maskínu fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands sýndi að um tveir þriðju hlutar Íslendinga telja hvalveiðar skaða orðspor landsins og fleiri eru andsnúnir veiðum en fylgjandi. Ferðaþjónustan og náttúruverndarsamtök fordæma þennan fámenna atvinnuveg og segja hann skaða náttúruna og ímynd landsins.

„Það sem mér finnst sorglegast í þessu máli er að til dæmis á þingi, þar sem endanleg ákvörðun um svona er tekin og á að endurspegla vilja þjóðarinnar, þá held ég að það sé meirihluti fyrir að hætta þessari vitleysu,“ segir Heiða Kristín. „En dugleysi stjórnmálamannanna er svo yfirgnæfandi að þau geta ekki klárað þetta mál og sett það fyrir aftan okkur sem part af einhverri fortíð. Þau fara undan í flæmingi, segja að þetta sé nú ekki svo mikið mál, tölur í ferðaþjónstu bendi ekki til að fólk sé að hætta við að koma út af hvalveiðum og svo framvegis. Þetta er svo lýsandi mál fyrir almennt dugleysi stjórnmálamanna heilt yfir sem er að verða mjög stórt vandamál í hinum vestræna heimi.“

Hvað eru hvalveiðar að gera fyrir þjóðarbúið?

„Bara alls ekki neitt. Og það hefur margsinnis sýnt sig að þessir hvalir sem Hvalur hf. dregur á land og bútar í sundur, það er enginn markaður fyrir þá. Ef það er einhver markaður þá er það bara eitthvað dýrafóður eða mjög óspennandi og lágt borgandi markaði langt í burtu. Alltaf þegar þetta fer í gang þá fáum við þessa gagnrýni yfir okkur og við nálgumst það eins og það sé ekki hluti af heildinni. Og það finnst mér of mikil áhætta, bæði fyrir ferðaþjónustuna en ekki síður sjávarútveginn, vegna þess að ég veit alveg til þess að stór sjávarútvegsfyrirtæki hér hafa fengið fyrirspurnir frá kaupendum og hafa þurft að gefa út tilkynningar um að þeir stundi ekki hvalveiðar.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Heiða Kristín
Heiða Kristín Helgadóttir