Fólk gerir ráð fyrir að þú standir þig illa

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

Fólk gerir ráð fyrir að þú standir þig illa

30.06.2022 - 13:30

Höfundar

„Þér líður oft eins og þú sért með allt kynið á herðum þér,“ segir tónlistarkonan Salka Valsdóttir sem hefur lengi unnið sem hljóðtæknir. Sá bransi er eins karllægur og frekast getur orðið og henni finnst hún oft utanveltu í starfi.

Tónlistarkonan Salka Valsdóttir, sem þekkt er úr hljómsveitunum CYBER og Reykjavíkurdætrum, ræddi um tengingu svefnherbergja og raftónlistar, hvernig það er að vera kona í hljóðvinnslu og finnast hún vera utangátta, í Tengivagninum á Rás 1.

Félagslegra fyrir stráka en stelpur 

Leiðirnar sem stelpur og strákar fara að því að byrja að pródúsera tónlist geta verið mjög ólíkar. Salka segir að ferlið sé mun félagslegra hjá strákum. „Þeir hittast heima hjá einhverjum og gera beats. Þetta er eins og að spila tölvuleiki hjá mörgum ungum strákum,“ segir Salka. 

„En ég held að stelpur sem byrja að pródúsera séu bara einar í svefnherberginu sínu, kannski með Hello Kitty heyrnartólin sín,“ segir Salka og hlær. Tónlistin sem stelpur og kynsegin fólk býr til heima sér sé oft skrítin og fáránleg og það þykir Sölku fallegt. „Þetta hefur breytt tónlistarlandslaginu mjög mikið og haft mikil áhrif.“ 

„Ég var alveg brjálaður krakki“ 

Sjálf byrjaði Salka ekki að búa til tónlist fyrr en hún var sautján ára en hún hefur alltaf leitað mikið í hljóðheiminn. Sem krakki lærði hún á trommur en hún segir að þær hafi fyrst og fremst verið notaðar sem reiðistjórnunartæki. „Ég var hjá geðlækni þegar ég var lítil og hann stakk upp á þessu, að ég ætti að fara að æfa þetta,“ segir hún. „Ég var alveg brjálaður krakki.“ 

Salka ímyndar sér að trommuslátturinn hafi verið algjör plága fyrir fjölskylduna vegna þess að þau bjuggu í timburhúsi sem var mjög hljóðbært og hún dvaldi löngum dögum við trommuleikinn. Hún hætti samt að leika á trommur vegna þess að hana langaði til að verða rokkstjarna. „Það gekk ekki með trommurnar en gekk öðru vísi.“ 

Hún segist alltaf hafa hrifist af tónlist og rifjar upp að sem barn skildi hún ekki hvar hana væri hægt að finna. „Ég hlustaði bara á útvarpið og fílaði ekki það sem var í útvarpinu, nema svona einstaka sinnum og þá var ég skrifa það niður og reyna að muna hvað eitthvað héti,“ segir hún. Síðar hafi hún hlustað á alla geisladiska föður síns til að reyna að finna eitthvað sem henni líkaði við. „Þannig ég var með djúpa þörf fyrir að finna tónlist sem ég tengdi við. En ég skildi ekki hvar ég ætti að finna hana.“ 

Hafði svo mikið að segja en of fá tól til þess  

Þegar Salka var sautján ára byrjaði hún í rappsveitinni Reykjavíkurdætrum þar sem hún hóf að skapa sína eigin tónlist. „Það var þá í rauninni mest í gegnum textagerð. Ég sá mig þá meira sem textahöfund eða ljóðskáld og fann svolítið í gegnum það leið til að byrja að búa til tónlist,“ segir hún. 

Hún segist hafa byrjað að búa til undirspil vegna þess að hún hafði svo rosalega miklar skoðanir en litla tæknikunnáttu. „Ég var rosalega pirruð alltaf því ég hafði svo mikið að segja en svo litla færni og fá tól til að koma því í verk,“ segir Salka. Hún hafði því samband við fólk sem gæti búið til takta fyrir hana en lét fylgja ítarleg handrit að þeim. „Ég fór til þeirra og fylgdist með hvernig þeir unnu það og í rauninni bara leikstýrði öllum bítunum sem ég fékk einhvern til að búa til fyrir mig.“ 

Svona sankaði Salka að sér gríðarlegri þekkingu, með því að fylgjast með öðrum vinna. Hún segir að stelpur hafi sjaldan stórt tengslanet sem þær geta hallað sér að þegar þær byrja að pródúsera. „Þannig að þetta var síðan mjög mikið ég ein heima hjá mér að reyna að gera eitthvað og bara prófa mig áfram,“ segir hún. „Og gera mjög mikið af mjög lélegum bítum.“ 

Lítur á hljóð sem sitt hljóðfæri 

Salka er sjálflærð sem pródúsent en lauk diplómunámi í hljóðtækni árið 2017. „Í gegnum þetta ferli varð ég alltaf áhugasamari um hljóð og hljóðvinnslu, hvernig þessir þættir vinna saman,“ segir Salka sem var snemma farin að sjá hljóð sem sitt hljóðfæri. „Af því að ég spilaði ekki beint á hljóðfæri þannig að það hvernig ég gæti mótað hljóð eins og leir var mín listræna tjáning,“ segir hún. 

Hún hefur unnið við hljóð á alls konar formi frá því að hún útskrifaðist. „En fyrst og fremst reyni ég að halda áfram að vera betri í að móta þau og skilja, sjá þau sem hljóðfæri og einhvers konar bút í stóru hljóðpúsli. 

Kulnun í Berlín

Eftir útskrift flutti Salka til Berlínar. Þar vann hún meira en nokkru sinni fyrr, ólíkt öðru samferðarfólki hennar þar. „Flestir fara til Berlínar og eru bara í görðum að tjilla og það er geðveikt næs,“ fólk taki sér ársfrí og dundi sér við að skapa tónlist og geta lifað á fáum verkefnum. „En ég var bara í fjórum vinnum og að brenna út,“ segir Salka sem vildi nýta hvert tækifæri sem bauðst.  

Í Berlín vann Salka við upptökur og hljóðblöndun hjá Kaiku Studios og stofnaði auk þess eigið stúdíó með tveimur öðrum stelpum sem reka það enn. Stúdíóið heitir Real Surreal Studios og veitir rými fyrir konur og kynsegin fólk. Einnig buðu þær upp á starfsnám fyrir þau sem vildu læra að vinna með hljóð í frekar vernduðu umhverfi.  

„Þú ert alltaf svo ótrúlega mikið the odd one out á öllum vinnustöðum þegar þú ert kona að vinna í hljóði,“ segir Salka og er ánægð með að hafa skapað öruggan vettvang. Alltaf hafi verið tíu til fimmtán á biðlista eftir að komast að í starfsnám. „Því það var svo fáránlega mikil eftirspurn eftir því að læra þetta í einhverju rými þar sem þú varst ekki alltaf að upplifa þig út undan eða utanveltu.“ 

Eina konan í 35 manna hljóðdeild  

Salka segist finna mikinn mun á að vinna í hljóðveri og með lifandi hljóð þegar kemur að því hvort hún er einangruð. „Í lifandi hljóði, þar finnst mér þetta mjög erfitt,“ segir hún. Það sé vegna þess að þá standi hún á bak við mixer og er auðsýnileg. 

„Þú finnur fyrir því að fólk geri ráð fyrir að þú munir standa þig illa, eða mjög margir,“ segir hún. Ef eitthvað gerist hugsi fólk: „Já, mig grunaði nú að þetta myndi ekki ganga vel.“ En það sé mikill sigur fyrir hana ef hún stendur sig vel. „Sem er kannski svona það sem heldur manni gangandi í gegnum þetta.“ 

„Þér líður oft eins og þú sért með allt kynið á herðum þér, þegar þú ert bara að hljóðmannast í einhverju einu giggi,“ segir Salka sem telur að hennar eigin innri rödd sé líklega erfiðust. „Þú upplifir að þú megir ekki feila. Og þó maður viti betur, þá er þetta upplifunin sem styrkist svo mikið því þú ert alltaf bara ein.“ Hún segist aldrei hafa verið ráðin í hljóðstarf þar sem hún sé ekki eina konan.  

Í Berlín vann Salka í 35 manna hljóðdeild við leikhúsið Volksbühne og þar var hún eina konan. „Og ég var fyrsta konan sem var ráðin síðan leikhúsið opnaði, 1914.“ Hljóðmannabransinn segir Salka að sé um 98,8% skipaður karlmönnum og henni geti fundist mjög erfitt að líta á sjálfa sig sem eðlilegan einstakling í þeim aðstæðum. „Þú upplifir þig alltaf sem utanaðkomandi og með imposter syndrome,“ segir hún en tekur fram að hún geti eingöngu talað fyrir sjálfa sig. 

Var þægilega kærulaus í gegnum ferlið 

Í hljóðversvinnu og við tónlistarsköpun segist Salka finna minna fyrir því af hvaða kyni hún er. Til að mynda segist hún ekki hafa verið í jafn miklu stríði við sjálfa sig þegar hún vann að tónlistinni fyrir leiksýninguna Rómeó & Júlíu sem Þjóðleikhúsið setti á fjalirnar. Þegar hún vinni sem hljóðmaður geisi oft rosaleg styrjöld innra með henni.  

Hún segist hissa á hve eðlilegt henni þótti að hún fengi að stjórna tónlistinni í leiksýningu á stóra sviðinu. Þá hafði hún starfað sem tónlistarkona í tíu ár og véfengdi ekki boðið. „Ég var kannski bara þægilega kærulaus í gegnum það,“ segir hún. „Ég var ekki alveg að skilja hvað það var mikið mál fyrr en eftir á, sem ég er mjög fegin.“ 

Salka segist finna á tíðarandanum núna að verið sé að hefja margar af kvenkyns stjörnum fortíðarinnar aftur til vegs og virðingar. Stjörnur sem samfélagið rakkaði jafnvel niður á sínum tíma en fái nú mikið lof. „Ég upplifi að núna sé í fyrsta skipti, alla vega síðan ég fæddist, að queer einstaklingar og konur séu svolítið að ráða því hvað er kúl og hvað ekki.“ Því séu spennandi tímar fram undan í raftónlistargerð kvenna. 

Rætt var við Sölku Valsdóttur í Tengivagninum á Rás 1. Viðtalið er hægt að hlusta á í heild sinni hér.  

Tengdar fréttir

Tónlist

„Þetta er að fara að vera svo geggjað partí“

Tónlist

Látið eins og það séu ekki konur í íslensku rappsenunni

Tónlist

Cyber selja gardínur og demanta á nýrri plötu