Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ein kona á móti þremur körlum í upplýsingatækni

30.06.2022 - 07:56
Mynd með færslu
 Mynd: Marek Levak - Pexels
Það hallar verulega á hlut kvenna í upplýsingatækni, segir Elísabet Árnadóttir öryggisstjóri. Nýlega stóðu Vertonet, samtök kvenna í upplýsingatækni, fyrir könnun um hlutföll kvenna i geiranum. Niðurstaðan var að almennt starfar ein kona á móti þremur karlmönnum í tækni.

„Það eru 25% kvenna sem starfa við upplýsingatækni í dag af þeim sem svöruðu og fjórðungur kvenna er í stjórnendastöðu hjá þessum fyrirtækjum. Á móti 75% karlmönnum. Svo það er gífurlega mikill munur,“ segir Elísabet.

Störfin karllæg og kvenlæg innan geirans

Elísabet segir þetta ekki ásættanleg hlutföll. Könnunin var gerð fyrst 2019 og síðan aftur í fyrra. „Það var svolítið sérstakt að sjá að það er misjafnt hvað þær eru að vinna við miðað við karlana, það eru færri konur í öryggismálum og almennum tölvurekstri. Þær eru meira í hópstjórn, verkefnastýringu og ráðgjöf. Þessu viljum við auðvitað líka breyta innan geirans. Að það sé ekki karllægt og kvenlægt innan upplýsingatækni. Auk þess að fá konurnar inn.“

Til að bregðast við ætla samtökin að fara í átak til að auka þátttöku kvenna í upplýsingatækni og könnunin nýtt til að finna leið til þess. „Það var óskað eftir upplýsingum frá mannauðsteymum fyrirtækja, meðal annars út í þeirra aðgerðir til að auka hlut kvenna í upplýsingatækni. 60% þeirra fyrirtækjum sem svöruðu voru að reyna að vinna að einhverjum aðgerðum til að auka hlut kvenna í tækni.“ Það gat verið allt frá því að orða auglýsingar þannig að þær höfðuðu jafnt til kvenna og karla og bjóða fleirum konum í viðtölin.

Konurnar sjálfar töldu mikilvægt að fá aðrar konur inn til að vinna með sér. „Þær litu líka til þátta eins og að hafa fjölbreytt verkefni, að þau séu spennandi, halda jafnvægi milli starfs og einkalífs, hafa möguleika á sveigjanlegum vinnutíma, skemmtilegt samstarfsfólk og starfsþróun skipti líka miklu máli,“ segir Elísabet.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV