Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Amnesty telur árás á leikhús í Mariupol til stríðsglæpa

This photo released by Donetsk Regional Civil-Military Administration Council on Wednesday, March 16, 2022 shows the Drama Theatre, damaged after shelling, in Mariupol, Ukraine. (Donetsk Regional Civil-Military Administration Council via AP)
Drama-leikhúsið í Mariupol er stórskemmt eftir loftárás Rússa. Talið er að allt að 1.200 manns hafi leitað skjóls fyrir sprengjuregninu í þessu húsi en ekki er vitað hversu mörg fórust í árásinni.  Mynd: AP
Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Amnesty International greina í nýrri skýrslu frá því að Rússar hafi að öllum líkindum framið stríðsglæp þegar þeir gerðu loftárás á leikhús í úkraínsku hafnarborginni Mariupol. AFP hefur eftir Oksönu Pokalchuk, formanni Amnesty í Úkraínu, að hún telji öruggt að árásin hafi verið stríðsglæpur.

Mannfall mögulega minna en talið var

Sprengingarnar voru gríðarmiklar. Samkvæmt rannsókn Amnesty, var tveimur fimm hundruð kílóa sprengjum varpað á leikhúsið úr flugvél. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að mannfall í árásinni hefði líklega verið minna en talið var í fyrstu. Óttast var að yfir 300 manns hefðu látið lífið í leikhúsinu, þar sem fjöldi almennra borgara leitaði skjóls undan átökunum á götum úti.

Rússar vissu að þarna væri athvarf almennings

Pokalchuk segir að öllum hafi verið ljóst að leikhúsið hefði ekkert hernaðarlegt mikilvægi, heldur væri það athvarf flóttafólks. Þar hefðu iðulega verið sjálfboðaliðar að færa flóttafólki vistir. Einn eftirlifenda greindi frá því að þennan örlagaríka dag hefðu um 800 þegið þar mat af hjálparsamtökum.

Amnesty ræddi við fjölda þeirra sem lifðu árásina af auk þess að safna sönnunargögnum á borð við ljósmyndir, myndbönd og gervitunglamyndir af vettvangi.