Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þetta eru Stelpurnar okkar

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Þetta eru Stelpurnar okkar

29.06.2022 - 20:38
Evrópumótið í fótbolta er hafið. Hér förum við yfir áhugaverða mola um leikmenn landsliðsins og sögu þeirra. Liðið sem Þorsteinn Halldórsson valdi er virkilega spennandi með unga leikmenn líkt og Amöndu Andradóttur í bland við þekkta reynslubolta eins og Dagnýju Brynjarsdóttur. Í liðinu eru jafnt nemendur við Harvard og varnarmenn AC Milan. Weetabix, Skagaströnd og moldun í Tælandi er meðal þess sem kemur við sögu.

Evrópumótið í knattspyrnu er hafið en Stelpurnar okkar mæta til leiks á Englandi á sunnudag. Mótið hefst á leik gestgjafa Englands og Austurríkis klukkan 19:00.

Sýnt verður frá öllum leikjum mótsins á RÚV. EM stofan verður alla keppnisdaga þar sem Helga Margrét Höskuldsdóttir og Edda Sif Pálsdóttir fara yfir mótið með þau Margréti Láru Viðarsdóttur, Ólaf Kristjánsson, Hörpu Þorsteinsdóttir og Ásgerði Stefaníu Baldursdóttir sér við hlið í hlutverki sérfræðinga.

Molar um liðið:

 

Agla María Albertsdóttir

Staða: Kantmaður - Fædd: 1999 - Lið: Häcken (Svíþjóð) - Uppeldislið: Breiðablik - Landsleikir: 47, 4 mörk

Kantmaðurinn knái Agla María er orðin ein af reynsluboltum liðsins þrátt fyrir ungan aldur. Aðeins 18 ára að aldri spilaði hún stórt hlutverk á EM 2017 undir stjórn Freys Alexanderssonar. en hún lék sína fyrstu landsleiki fyrr á því ári. Á þessu ári reyndi Agla fyrir sér utan landsteinana er hún gekk til liðs við Häcken í Svíþjóð, sem er í baráttu um Evrópusæti í Damallsvenskan. Bróðir hennar spilar með KR í Bestu deild karla, Aron Þórður Albertsson.

Alexandra Jóhannsdóttir

Staða: Miðjumaður- Fædd: 2000 - Lið: Eintracht Frankfurt (Þýskaland) - á láni hjá Breiðablik í sumar - Uppeldislið: Haukar - Landsleikir: 24, 3 mörk

Alexandra spilar fyrir Eintracht Frankfurt í Þýskalandi og er þekkt fyrir langskot sín og snjallar sendingar sem brjóta upp línur andstæðingsins.  Hefur fengið stórt hlutverk á miðri miðjunni hjá landsliðinu frá því að Þorsteinn Halldórsson tók við liðinu, en hann stýrði Alexöndru áður hjá Breiðablik. Hún hefur alltaf fært þeim liðin sem hún spilar fyrir mörk af miðjunni en hrökkkex með rjómaosti og sultu er það sem hún vill einna helst snæða í millimál.

Amanda Andradóttir

Staða: Kantmaður - Fædd: 2003 - Lið: Kristianstads DFF - Uppeldislið: Víkingur Reykjavík og Valur - Landsleikir: 6

Fótboltaáhugamenn landsins eru virkilega spenntir að sjá hvað Amanda gerir í landsliðstreyju Íslands í sumar en mikil pressa var á Þorsteini landsliðsþjálfara að velja hana í liðið á síðasta ári. Gat Amanda valið að spila fyrir hönd norska landsliðsins og hafði spilað fyrir U19 ára lið Norðmanna. Hún hefur síðustu ár flakkað milli Norðurlandanna frá Nordsjælland (Danmörk) til Vålerenga (Noregur), en er nú að spila undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur hjá Kristianstads í Svíþjóð. Amanda er dóttir Andra Sigþórssonar sem spilaði á árum áður með karlalandsliðinu og á þar sjö landsleiki og tvö mörk. Þá er framherjinn Kolbeinn Sigþórsson frændi Amöndu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú
Alexandar og Dagný klárar í slaginn á miðjunni

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir

Staða: Bakvörður/kantmaður - Fædd: 2001- Lið: Harvard (Bandaríkin) og Breiðablik - Uppeldislið: Höttur - Landsleikir: 5

Það er ólíklegt að stelpurnar okkar mótmæli ef við höldum því fram að Áslaug Munda sé einna klárust þeirra, enda stundar hún nám við taugafræði við Harvard. Hefur verið frá vegna höfuðmeiðsla og því tvísýnt með þátttöku hennar á mótinu. Uppalin á Egilsstöðum áður en hún hélt til Húsavíkur að spila með Völsungi. Er með einkar mikil gæði í vinstri löpp sinni og getur leyst margar stöður á vellinum

Berglind Björg Þorvaldsdóttir

Staða: Framherji - Fædd: 1992 - Lið: Brann (Noregur) - Uppeldislið: Breiðablik og ÍBV - Landsleikir: 63, 11 mörk

Markamaskínan Berglind Björg spilar í Bergen með norsku meisturunum þar í landi. Þessa dagana er hún á fullu í Duolingo að fullkomna norskuna en síðustu ár hefur hún tekið sannkallað Evrópureisu og spilað fyrir stórlið líkt PSV, AC Milan, Le Havre, Hammarby. Bróðir hennar er Gunnar Heiðar Þorvaldsson en Berglind er nú þegar búin að slátra Gunnari í samkeppninni um bæði landsleiki og mörk, en Gunnar er með 5 mörk í 24 leikjum á móti 10 í 62 hjá Berglindi. Berglind leggur stund á sálfræði á milli leikja og æfinga.

Cecilía Rán Rúnarsdóttir -

Staða: Markvörður- Fædd: 2003 - Lið: Bayern München (Þýskaland) - Uppeldislið: Þróttur og Afturelding - Landsleikir: 8

Cecilía þykir með efnilegustu markvörðum Evrópu en verður líklega að sætta sig við að vera varamarkvörður fyrir Söndru Sigurðardóttur. Reynslan frá mótinu mun eflaust nýtast Cecilíu vel sem er á láni hjá Bayern en hefur einnig verið hjá Everton. Er það draumurinn að vera hjá Bayern? spurði Fannar Cecilíu í þáttunum Förum á EM "Já, er það ekki? Æfa alla daga, svo ferðu bara heim og chillar. Kannski læra smá," var svarið.

Mynd: RÚV / RÚV
Fannar heimsótti stöllurnar Glódísi, Karólínu og Cecilíu til München

Dagný Brynjarsdóttir

Staða: Miðjumaður - Fædd: 1991- Lið: West Ham (England) - Uppeldislið: KFR - Landsleikir: 102, 34 mörk

Hin þrítuga Dagný skorar í þriðja hverjum leik fyrir landsliðið og á gífurlega stóran bikarskáp eftir feril sinn með félagsliðum. Nú spilar hún fyrir West Ham en það er einmitt liðið sem hún hélt með í æsku. Besti vinur hennar á Hellu, Tómas Steindórsson nokkur, hélt með West Ham og Dagný fylgdi með. Er einn besti skallamaður heims en andstæðingar hennar mega síns lítils í loftinu gegn henni.

Elín Metta Jensen

Staða: Framherji - Fædd: 1995- Lið: Valur - Uppeldislið: Valur- Landsleikir: 59, 16 mörk

Valsarinn Elín Metta er með markanef af guðs náð og hefur alla tíð leikið á Hlíðarenda að undanskildu stuttri veru í Florida State háskólanum. Orðrómur gekk um að hún hygðist hætta knattspyrnuiðkun en Þorsteinn Halldórsson hafi sannfært hana um að taka slaginn svo hún yrði klár á EM. Læknisfræðinám tekur mikið af frítíma Elínar. „Maður gerir sér alveg grein fyrir því að maður er ekki að fara að lifa af launum eitthvað langt fram í tímann. Maður getur ekki tekið eitthvað eitt tímabil í Tælandi og komið moldaður heim. Þetta er svona aðeins öðruvísi veruleiki sem við búum við,“ sagði hún í viðtali við RÚV 2019.

Elísa Viðarsdóttir

Staða: Bakvörður- Fædd: 1991- Lið: Valur - Uppeldislið: ÍBV- Landsleikir: 47

Elísa er næringarfræðingur sem gaf nýlega út bókina Næringin skapar meistarann. Morgunmaturinn hennar er því ekkert grín: "Hafrar, chia-fræ, hampfræ, salt, smá sítrónusafi, látið liggja í möndlumjólk yfir nótt. Toppa þessa máltíð svo með því sem til er hverju sinni. Oftast er það banani og stökkt múslí & KAFFI. Ég er mikil kaffikona." Hún er yngri systir Margrétar Láru Viðarsdóttur en hún er ekkert lamb að leika sér við á vellinum enda virkilega kraftmikil á velli.

Glódís Perla Viggósdóttir

Staða: Miðvörður - Fædd: 1995 - Lið: Bayern München (Þýskaland) - Uppeldislið: HK/Víkingur - Landsleikir: 101, 6

Glódís Perla hefur átt stöðuna í miðju varnarinnar síðan spilaði sinn fyrsta landsleik aðeins 17 ára gömul. Hún byrjaði þó nokkuð seint í fótbolta, eða 9 ára, en einbeitt sér fyrst um sinn að júdó. Íslenska þjóðin mun seint fullþakka henni fyrir að skipta um vettvang. Sannkallaður 'Rolls-Royce' hafsent sem getur jafnt borið boltann upp, tekið 60 metra kantskiptingar og snýtt framherjum. Þekkt fyrir að missa af afar fáum leikjum með félagsliðum sínum, en það þykir ansi líklegt að hún muni slá landsleikjamet Söru Bjarkar Gunnarsdóttur ef fram heldur sem horfir. Hefur nýtt tímann úti í atvinnumennsku til að mennta sig sem einkaþjálfari.

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir

Staða: Nær hvar sem er - Fædd: 1988 - Lið: Orlando Pride (Bandaríkin) - Uppeldislið:  Bandarísk lið og Stjarnan - Landsleikir: 90, 14 mörk

Gunnhildur Yrsa hefur reynst íslenska liðinu virkilega vel er hún hefur brugðið sér í allra kvikinda líki. Hefur mikið verið í Bandaríkjunum í ferli sínum og spilaði stóran þátt í að eigendaskipti urðu hjá þáverandi liði hennar Utah Royals. Dell Loy Hansen gerði sig þá sekan um kvenfyrirlitningu og kynþáttafordóma og fordæmi Gunnhildur Yrsu hegðun og orð hans réttilega.

Guðný Árnadóttir

Staða: Miðvörður - Fædd: 2000 - Lið: AC Milan (Ítalía) - Uppeldislið:  Sindri og FH - Landsleikir: 15

Tröppugangur Guðnýjar hefur verið nær lygilegur síðustu ár en hún kom til Vals frá FH árið 2019. Tveimur árum síðar var hún mætt til AC Milan í toppbaráttunni í Serie A. Hún fór á fyrstu æfingarnar sínar með Sindra á Höfn í Hornafirði eftir að hafa gert samning við móður sína - 20 æfingar og hún fengi Playmo hús. Skriflegur samningur var hengdur á ísskápinn og Guðný hefur ekki litið til baka síðan.

Guðrún Arnardóttir

Staða: Hafsent - Fædd: 1995 - Lið: FC Rosengård (Svíþjóð) - Uppeldislið:  Selfoss - Landsleikir: 13, 1 mark

Hefur átt virkilega góðu gengi að fagna með Rosengård upp á síðkastið. Vann sænska bikarinn í fyrra og liðið situr nú á toppi deildarinnar. Spilaði hún með háskólaliði Santa Clara í Kaliforníu við góðan orðstír en komst í fréttirnar 2017 þar sem hún var nokkuð nærri skógareldum sem átu upp skóga fylkisins. „Þetta er eitt­hvað sem maður heyr­ir af úti í heimi en ímynd­ar sér aldrei að vin­ir manns lendi í."

Hallbera Guðný Gísladóttir

Staða: Bakvörður - Fædd: 1986 - Lið: IFK Kalmar (Svíþjóð) - Uppeldislið:  ÍA - Landsleikir: 123, 3 mörk

Á árum áður var Hallbera teknískur og hraður kantmaður en hefur færst aftar á völlinn. Í dag er hún gallharður vinstri bakvörður sem enginn kantmaður vill mæta. Það er spurning hvort eitthvað hafi breyst frá 2010 en þá sló hún tannburstanum 12 sinnum í vaskinn eftir notkun. Líflegur karakter sem sér oftar en ekki um tónlistina inni í klefa fyrir leiki undir listamannsnafninu DJ Razzberry.

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú
Hallbera er ek

Ingibjörg Sigurðardóttir

Staða: Miðvörður - Fædd: 1997 - Lið: Vålerenga (Noregur) - Uppeldislið:  Grindavík - Landsleikir: 45

Grjótharði Grindvíkingurinn spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild fyrir Grindavík einungis 13 ára gömul. Í Meistaradeild Evrópu gegn Rosengård spurði hún brasilíukonuna Mörtu, sem almennt er talinn einn besti leikmaður sögunnar einfaldrar spurningar: "What the fuck is wrong with you?"

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir

Staða: Miðjumaður - Fædd: 2001 - Lið: Bayern München (Þýskaland) - Uppeldislið:  FH - Landsleikir: 19, 7 mörk

Þessi bráðefnilegi leikmaður er með markanef býr yfir mikilli útsjónarsemi. Varð nýverið nýjasti meðlimur Weetabix fjölskyldunnar þar sem hún gerðist eitt af andlitum morgunkornsins þurra, ásamt landsliðinu í heild sinni. Verður virkilega áhugavert að fylgjast með þróun hennar á næstu árum í landsliðinu og Bayern.

Sandra Sigurðardóttir

Staða: Markvörður - Fædd: 1986 - Lið: Valur - Uppeldislið:  KS og Þór/KA - Landsleikir: 42

Eftir mörg ár sem varamarkvörður landsliðsins hefur Sandra endanlega tryggt stöðu sína en hún hefur meira og minna varið mark liðsins frá 2019. Sandra er vægast sagt leikjahá í A deild kvenna en hún hefur spilað nær alla leiki frá 2002 og er komin alls í 324 leiki í A deild. Hún hefur skorað eitt mark, vítaspyrn gegn KR í 8-0 útisigri Stjörnunnar 2010.

Sara Björk Gunnarsdóttir

Staða: Miðjumaður - Fædd: 1990 - Lið: Juventus- Uppeldislið:  Haukar - Landsleikir: 138 leikir, 22 mörk

Það þarf vart að kynna Söru Björk fyrir landsmönnum en hún er sú knattspyrnukona sem hefur unnið Evróputitilinn oftast allra - bæði karla og kvenna, tvisvar alls. Það er spurning hvort eitthvað hafi breyst frá því hún var 17 ára, en þá sagði hún fotbolti.net að hún vildi gjarnan breyta innkasti í innspark.

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Selma Sól Magnúsdóttir

Staða: Miðjumaður - Fædd: 1998 - Lið: Rosenborg (Noregur) - Uppeldislið:  Breiðablik - Landsleikir: 16, 1 mark

Þrátt fyrir að hafa einungis skorað einu sinni í sextán landsleikjum er Selma Sól með skotlöpp sem andstæðingar þurfa að gæta að. Bróðir hennar Sindri Snær Magnússon hefur lengi vel spilað í efstu deild með liðum eins og Keflavík, ÍA og ÍBV. Spilaði með Carolina Gamecocks við góðan orðstír í bandaríska háskólaboltanum árið 2018.

Sif Atladóttir

Staða: Varnarmaður - Fædd: 1985 - Lið: Selfoss - Uppeldislið:  FH - Landsleikir: 89

Sif er dóttir goðsagnarinnar Atla Eðvaldssonar en Sif er goðsögn í lifandi líki sjálf. Var lykilmaður í Kristianstad ævintýrinu þar sem Elísabet Gunnarsdóttir stýrði ásamt Birni Sigurbjörnssyni. Björn og Sif eru gift og stýrir Björn nú Selfossi í Bestu deild kvenna en Sif stýrir vörninni. Sif hefur enn ekki skorað fyrir landsliðið en það er vonandi að markið komi í sumar.

Við fórum úr því að vera „jójó-lið“, í að verða nánast gjaldþrota en bjarga okkur frá því, og upp í að vinna medalíu og ná loksins markmiðinu um að spila í Meistaradeild Evrópu. Það var ótrúlega fallegt að hafa getað klárað þetta með því að spila á heimavelli í Meistaradeildinni, og að hafa verið hluti af því að koma Kristianstad á kortið.“ - Sif Atladóttir

Svava Rós Guðmundsdóttir 

Staða: Sóknarmaður - Fædd: 1995 - Lið: Brann (Noregur) - Uppeldislið: Fram og Valur- Landsleikir: 35, 2 mörk

Svava Rós er leifturhraður leikmaður sem getur leyst allar stöður framarlega á vellinum. Þorsteinn þjálfari mun sennilega leita til hennar til að sprengja upp leiki af bekknum og til að keyra á þreytta varnarmenn andstæðinganna. Það er spurning hvort að Svava færi sig yfir í píluna þegar hún leggur skóna á hilluna, en samkvæmt henni sjálfri er hún "afbragðs pílukastari."

Sveindís Jane Jónsdóttir

Staða: Sóknarmaður - Fædd: 2001- Lið: Wolfsburg (Þýskaland) - Uppeldislið: Keflavík - Landsleikir: 19, 7 mörk

Keflvíkingurinn Sveindís Jane á framtíðina fyrir sér en hún hefur skorað nær alls staðar sem hún hefur farið - hvort sem það er með landsliðum eða félagsliðum. Sveindís er lærður einkaþjálfari en hún var fyrst kölluð upp í A landsliðshóp árið 2016. Samkvæmt feykir.is á Sveindís ættir að rekja til Skagastrandar og geta heimamenn þar á bæ prísað sig sæla yfir því.

Telma Ívarsdóttir

Staða: Markvörður - Fædd: 1999 - Lið: Breiðablik - Uppeldislið: Fjarðabyggð - Landsleikir: 1

Telma er hávaxinn og gríðarlega efnilegur markvörður sem er fædd á Neskaupstað. Hefur verið lykilmaður í liði Blika síðustu tvö tímabil eftir að hafa farið á lán fjögur tímabil í röð. Var eins konar þróunarverkefni í kvennastarfi Blika sem heppnaðist virkilega vel. Fékk mikilvæga reynslu í Meistaradeildinni í fyrra og verður áhugavert að fylgjast með þróun hennar á næstu árum.

Leikja- og markahæstar

Leikjahæsti leikmaður hópsins er Sara Björk Gunnarsdóttir með 138 landsleiki alls en á eftir henni kemur Hallbera Gísladóttir með 127 leiki.

Þeir leikmenn í hópnum sem hafa skorað flest mörk fyrir landsliðið eru Dagný Brynjarsdóttir (34 mörk - 101 leikir), Sara Björk (22 mörk - 138 leikir) og Elín Metta Jensen (16 mörk - 59 leikir).

 

Leikir Íslands á mótinu: 

Sunnudagur 10. júlí - Belgía gegn Íslandi. 16.00

Fimmtudagur 14. júlí - Ítalía gegn Íslandi - 16.00

Mánudagur 18. júlí - Frakkland gegn Íslandi - 19.00