Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Réttur farþega enginn ef töfin er undir tveimur tímum

Mynd: RÚV / Sölvi Andrason
Lögfræðingur segir sárasjaldgæft að leitað sé til Neytendasamtakanna vegna röskunar á innanlandsflugi enda sé réttur farþega lítill ef töfin er undir tveimur klukkustundum.

Réttarstaðan ekki rík gagnvart flugrekandanum fyrstu tvo klukkutímana

Líkt og fréttastofa hefur fjallað um hefur mikil röskun orðið á innanlandsflugi frá ársbyrjun, þar sem óveður, bilanir og heimsfaraldur eru sagðar vera helstu ástæður. Hlutfall seinkaðra ferða af heildaráætlun var á bilinu tuttugu og eitt komma sjö prósent og tuttugu og sjö prósent, misjafnt eftir landshlutum. Röskun á flugi getur haft mikil áhrif á líf fólks og erindagjörðir þó lítil sé, en þrátt fyrir það segir lögfræðingur hjá Neytendasamtökunum sárasjaldgæft að fólk leiti til þeirra þegar röskun verður á innanlandsflugi. „Réttarstaðan í þessum tilfellum er aftur á móti ekkert rík gagnvart flugrekandanum því þarna reynir á ákveðin tímamörk og réttindi gagnvart flugrekanda varðandi seinkanir stofnast fyrst og fremst eftir tveggja klukkutíma seinkun,“ segir Einar Bjarni Einarsson, lögfræðingur hjá Neytendasamtökunum.

Réttur á stöðluðum skaðabótum og endurgreiðslu máltíða og farmiða

Fram að þessum tveggja klukkutíma mörkum er lítið annað hægt að gera en að bíða og vona að röskunin hafi ekki meiriháttar áhrif. „Ef að tafirnar verða meira en sem nemur tveimur klukkutímum að þá getur það sótt um að fá endurgreiðslu á máltíð sem kann að kosta við töfina. Ef töfin verður lengri en þrír klukkutímar þá getur það krafist staðlaðra skaðabóta og ef töfin verður meira en fimm klukkutímar getur það bæði gert þessa tvenna hluti sem og farið fram á endurgreiðslu á farmiðanum,“ segir Einar. Staðlaðar skaðabætur eru 250 evrur. Einar segir alla þessa þætti virkjast þegar flugi er aflýst, að því gefnu að aflýsingin sé ekki vegna óviðráðanlegra aðstæðna.