Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Johnson vill að NATO-ríki verji meira fé í varnarmál

epa10035178 British Prime Minister Boris Johnson poses at the round table prior the first working session  during the G7 Summit at Elmau Castle in Kruen, Germany, 26 June 2022. Germany is hosting the G7 summit at Elmau Castle near Garmisch-Partenkirchen from 26 to 28 June 2022.  EPA-EFE/Sven Kanz / POOL
 Mynd: EPA-EFE - ACTION PRESS POOL
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ætlar að hvetja leiðtoga aðildarríkja NATO til að leggja aukna áherslu á varnarmál ríkja sinna vegna stríðsins í Úkraínu. Hann vill að minnst tvö prósent af vergri landsframleiðslu í hverju landi renni til hernaðar- og varnarmála.

Þetta hefur AFP-fréttaveitan eftir breska forsætisráðuneytinu sem segir Johnson ætla að taka málið upp á fundi aðildarríkjanna sem nú stendur yfir í Madríd.

Minnir á markmið frá 2014 um að minnst 2% renni til varnarmála

Þegar Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014 hétu ríkin í hernaðarbandalaginu að minnst 2% af vergri landsframleiðslu hvers þeirra yrðu sett í varnarmál til þess að vera viðbúin frekari átökum. Aðeins átta ríki stóðu við þetta markmið á liðnu ári. Önnur, svo sem Þýskaland og Ítalía, hafa bætt verulegum fjármunum í varnarmál frá því að stríðið hófst í Úkraínu.

Johnson ætlar, samkvæmt ráðuneytinu, að minna bandalagsríkin á þetta markmið á fundinum í dag, miðvikudag, og hvetja leiðtogana til að setja varnarmál enn ofar á forgangslistann í ljósi átakanna í Evrópu.
Hann ætlar einnig að tilkynna aukinn hernað Breta í Eistlandi á fundinum í dag. Þar ætla Bretar að fjölga í herliði sínu og bæta verulega í vopnabúr.

1,5 milljarðar evra frá Bretum til Úkraínumanna

Bresk stjórnvöld hafa lagt mikla fjármuni í átökin í Úkraínu og látið úkraínska hernum í té um 1,5 milljarða evra. Stjórnarandstaðan á breska þinginu gagnrýnir áherslur Johnsons sem og loforð forsætisráðherrans um að bæta enn frekar í árið 2022.