Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hlýnun á norðurslóðum eykst hraðar en hnattræn hlýnun

29.06.2022 - 14:39
Hafís
 Mynd: Wikimedia Commons
Hnattræn hlýnun hefur aukist á liðnum áratugum, en ný rannsókn leiðir í ljós að hlýnun á norðurslóðum heldur áfram að aukast hraðar en hnattræn hlýnun.

Þetta kemur fram í samantekt samráðsfundar um veðurfarshorfur á norðurslóðum, Arctic Climate Forum, sem er samstarfsvettvangur ríkja á norðurslóðum, og er Ísland eitt þeirra. Verkefnið er undir hatti Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar.

Samantektin var gerð í kjölfar níunda fundar Arctic Climate Forum, sem haldinn var í maí 2022. Fulltrúar Íslands, Bandaríkjanna, Kanada, Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs, Finnlands og Rússlands kynntu rannsóknir vísindafólks á stöðu loftslags og veðurfars á norðurslóðum, sem og rannsóknir á þróun Norðurskautsíss.

Skiptir byggðalög á norðurslóðum miklu

Dr. Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu á Veðurstofu Íslands, kynnti á fundinum niðurstöður íslenskra vísindamanna og horfur á hitastigi og úrkomu fyrir vestnorræna svæðið. 

Anna Hulda segir í samtali við fréttastofu að hlýnunin hafi afgerandi áhrif á lífríki og byggðarlög á norðurslóðum, einnig hérlendis. Vaxandi hlýnun á norðurslóðum orsakast af samspili margra ólíkra þátta í vistkerfinu.

„Þetta er samspil margra þátta og það sem einkennir sér í lagi þetta svæði er að þarna erum við með mikið af ís og ekki bara það, heldur erum við lika með styttri daga og öðruvísi daga heldur en við upplifum við miðbaug, varðandi birtuna.“

Ísinn á Norðurskautinu bráðnar hraðar

Síðasta vetur náði útbreiðsla íss á Norðurskautinu hámarki, tveimur vikum fyrr en í meðalári. Mælingar á útbreiðslu íssins frá 1979, sýna að útbreiðsla hans hefur minnkað á hverjum vetri, tíu ár í röð.

„Bráðnun bæði jökla og sífrera er að eiga sér stað, sem að hefur náttúrulega víðtæk áhrif á lífríki sjávar og lands. Og það hefur áhrif á allan heiminn, sjávarstöðu til dæmis. En líka orsakar það að við erum að sjá meira af óviðri á öðrum stöðum í heiminum,“ segir Anna.

Hún bætir við að afleiðingarnar verði því alltaf hnattrænar og keðjuverkandi enda vistkerfi jarðarinnar samofið. Áhrif hérlendis og í byggðarlögum á norðurslóðum verði mest í lífríkinu, og geti orðið alvarleg fyrir lífsafkomu íbúa á svæðinu.

„Við þurfum alveg sérstaklega að passa upp á þessi svæði þar sem að hitafarsaukningin er að gerast svona miklu hraðar heldur en annars staðar. Rosalega mikilvægt að við reynum að sporna við henni á þessum svæðum með einhverjum hætti, segir dr. Anna Hulda Ólafsdóttir.