Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Metur andlegt tjón eftir brunann á Bræðraborgarstíg

Mynd með færslu
 Mynd: Markús Þ. Þórhallsson
Matsmaður var skipaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í dómsmáli sem aðstandendur og eftirlifendur brunans að Bræðraborgarstíg 1 höfðuðu. Þau stefna eiganda hússins og krefjast á annað hundrað milljóna í bætur. Eigandinn krefst frávísunar málsins og verður sú krafa tekin fyrir í héraðsdómi í haust.

Dómkvadda matsmanninum er ætlað að meta andlegt tjón þeirra sem lifðu af brunann á Bræðraborgarstíg 1 fyrir tveimur árum og fjölskyldu þeirra þriggja sem létust. Þau hafa stefnt eiganda hússins, HD verk ehf. og eiganda félagsins Kristni Jóni Gíslasyni. Þau krefjast samtals 162 milljóna króna í skaðabætur fyrir þjáningar, varanlegan miska og varanlega örorku. Þau telja að með stórfelldu gáleysi hafi eigandi hússins valdið líkamstjóni og dauða með ófullnægjandi brunavörnum. 

Níu þeirra sem standa að málaferlunum eru búsett í Póllandi en hin átta á Íslandi. Þau krefjast þess jafnframt að héraðsdómur staðfesti kyrrsetningu sýslumanns á eignum HD verks og alla hlutir í því félagi og félaginu Lífstíl ehf. 

30 milljóna bótakrafa sú hæsta

Hæstu bótakröfuna, tæpar þrjátíu milljónir, gerir fyrrum íbúi í húsinu sem glímir við margvísleg líkamleg einkenni eftir brunann. Næsthæstu kröfuna, tuttugu og fimm milljónir, gerir fyrrum íbúi á þriðju hæð sem braut rúðu í herbergi sínu með höndunum og stökk út um gluggann.

Maki annarrar konunnar sem lést fer fram á tæpar átján milljónir króna í bætur. Fram kemur í stefnunni að hann hafi ekki verið heima við þegar eldurinn hafi komið upp en fengið taugaáfamaki við fregnir af andláti konu sinnar sem lést í stiganum á leiðinna af þriðju hæð hússins. Í stefnunni segir að þau hafi komið til Íslands til að safna peningum fyrir brúðkaupi sínu

Sex af þeim sem standa að málaferlunum hlutu varanlega örorku af völdum brunans. 

Krefst frávísunar málsins

Í stefnunni er vitnað til skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þar sem segir að brunavarnir hafi ekki verið í samræmi við teikningu af húsinu frá árinu 2000. Þessa niðurstöðu dregur lögmaður Kristins, Skúli Sveinsson, í efa í samtali við fréttastofu RÚV. Teikningin sem HMS vísi til sé sú sem en einn af fyrrverandi eigendum hússins hafi lagt fyrir skipulagsyfirvöld í Reykjavík en teikningin hafi ekki sýnt húsið eins og það var. Skúli segir jafnframt að HMS miði kröfur um brunavarnir við lagaákvæði sem hafi tekið gildi eftir að húsið hafi verið byggt og eftir síðustu breytingar á því. Kristinn hefur krafist frávísunar dómsmálsins og verður krafan tekin fyrir í haust. 

Fleiri skaðabótakröfur í farvatninu

Fram kemur í stefnunni að eftirlifendur og aðstandendur ætli jafnframt að krefjast bóta í máli sem lögregla rannsakar um brunavarnir í húsinu. Kristinn Jón er sakborningur í því máli. Fyrr í þessum mánuði staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um öryggisvistun Marek Moszczynski á stofnun. Hann var ákærður fyrir þrjú manndráp og tíu manndrápstilraunir með því að kveikja í húsinu á Bræðraborgarstíg.