Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lá alltaf fyrir að T-listi myndi ráða Þorgeir

28.06.2022 - 10:39
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Jónsson - Strandabyggð
Þorgeir Pálsson hefur verið ráðinn sveitarstjóri í Strandabyggð. Þorgeir, sem er líka oddviti í sveitarfélaginu, fær þar með aftur sitt fyrra starf. Hann segir það alltaf hafa legið fyrir hjá Strandabandalaginu í aðdraganda kosninga að fengi framboðið brautargengi yrði hann ráðinn til starfa.

Þorgeir var sveitarstjóri í Strandabyggð á síðasta kjörtímabili en fyrri sveitarstjórn sagði honum upp störfum. Í framhaldi stofnaði hann T-lista Strandabandalagsins og vann meirihluta í sveitarstjórnarkosningum í maí. 

„Það var margt og mörg verkefni sem ég vildi koma að sem ég vildi koma að sem að vannst ekki færi til. Þannig ég hef allan tímann haft þennan hug. Mér finnst þetta mjög áhugavert verkefni og ég var ekki alveg búinn.”

Minnihluti A-lista í sveitarstjórn gagnrýnir ráðninguna. Með henni sé farið á svig við starfsmannastefnu Strandabyggðar þar sem segir að jafnaði séu öll störf sveitarfélagsins auglýst. Þá hafi listi Þorgeirs lofað því fyrir kosningar að auglýsa ætti í allar stjórnunarstöður. Hann segir þennan ráðahag alltaf hafa legið fyrir. 

„Við lögðum það upp alveg frá upphafi og kynntum það fyrir íbúum í aðdraganda kosninga að ég yrði framkvæmdastjóraefni. við sjáum það bara allt í kringum okkur þegar oddvitar meirihlutalistanna eru síðan ráðnir sveitarstjórar eða bæjarstjórar eftir því hvað við á.”

Hann sé nú oddviti í tíu prósent starfi og sveitarstjóri í níutíu, sem hafi verið einfaldasta leiðin til að ráða hann til starfa. Minnihluti gagnrýnir einnig laun sveitarstjóra, þar sem er stuðst við þingfarakaup. Þau séu of há miðað við stærð sveitarfélagsins og úr takti við slæma fjárhagsstöðu þess.  

„Ég held að þegar fólk fer að skoða umfang starfa sveitarstjóra og bæjarstjóra þá sjái það að þetta er ansi fjölbreytt og víðtækt og nær út fyrir hefðbundinn tímaramma oft á tíðum og kannski það sem fólki myndi þykja eðlilegar kröfur.”