Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Dekkjaskortur yfirvofandi vegna innrásar Rússa

28.06.2022 - 13:43
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Búast má við dekkjaskorti þegar líða tekur á haustið. Það má rekja til efnahagsþvingana vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Skorturinn getur haft áhrif á verðlag.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir nágrannaþjóðir þegar hafa varað við þessu.

„Við höfum séð upplýsingar frá systurfélögum okkar í Skandinavíu um að þar hafi menn áhyggjur af því að ástand sem er úti í heimi, varðandi Úkraínustríðið, komi til með að hafa áhrif sérstaklega á komandi vetrarvertíð með vetrardekk,“ segir Runólfur í samtali við fréttastofu.

Hann segir vandamálið sérstaklega tengt þessum svokölluðu norrænu vetrarmynstrum, dekk sem séu sérhönnuð fyrir norrænar aðstæður. Hátt í þrjátíu prósent vetrardekkja í Svíþjóð séu til að mynda framleidd í Rússlandi og mikið af hráefninu til framleiðslunnar komi einnig aðallega þaðan.

„Ég heyri nú líka að menn eru frekar bjartsýnir á að mæta þessu að einhverju leyti með því að auka framleiðslu á öðrum markaðssvæðum en hugsanlega getur það haft áhrif á verðlagningu dekkja en það á eftir að koma í ljós,“ segir Runólfur.

Líklegt að einhverjir geti aukið framleiðslu sína á móti

Elín Dögg Gunnars Valjaots, fjármálastjóri rekstrarfélags og og framkvæmdastjóri fasteignafélags í Dekkjahöllinni, staðfestir dekkjaskortinn, sem hún segir stafa af stríðinu.

„Það virðist bæði vera vegna framleiðslu á þessum svæðum en einnig hugsanlega vegna hráefnamarkaða sem eru að hafa áhrif. Mér sýnist þetta vera sérstaklega þegar að snýr að nagladekkjum fyrir haustið,“ segir Elín.

Hún bætir við að líklegast séu einhverjir sem geta aukið framleiðslu sína á móti, sumir séu einnig að framleiða fyrir Rússlandsmarkað sem munu þá ekki senda inn á þá markaði í staðinn.

Hún segist vonast til þess að málið leysist að einhverju leyti.