Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Blikkandi aðvörunarljós sett upp í Reynisfjöru

28.06.2022 - 10:21
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin - RÚV
Vegagerðin vinnur að því að setja upp ljósaskilti í Reynisfjöru sem blikkar rauðum ljósum við mjög hættulegar aðstæður. Vegagerðin hefur notað atvikaskráningu lögreglu til að ákveða við hvaða ölduhæð fólki er hætta búin. 

Vegagerðin hóf vinnu við spálíkan um ölduhæð í Reynisfjöru fyrir fimm árum eftir að hún fékk styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Það líkan er aðgengilegt á vef Vegagerðarinnar, segir Fannar Gíslason, forstöðumaður hafnadeildar Vegagerðarinnar.

Búið að litakóða hættuna

„Með því getum við spáð fyrir með ákveðinni vissu um hvernig öldulagið verður fyrir framan. Og það er sem sagt komið í gang á vef Vegagerðarinnar og er aðgengilegt þar. Þar er búið að litakóða hættuna með grænu, gulu og rauðu eftir því hversu mikil áhættan er varðandi öldulag við Reynisfjöru,“ segir Fannar.

Núna er unnið að aðvörunarskilti með blikkandi ljósum sem verður komið upp við hlið skiltanna sem fyrir eru við bílaplanið og göngustíginn í Reynisfjöru. Þegar öldulagið er með skásta móti verður þó ekki látið loga grænt í fjörunni. 

Rautt blikkandi ljós þegar hætta er mest

„Þannig að það verður bara blikkandi gult ljós aðvörunarljós og svo verður það rautt þegar aðstæðurnar eru vondar. Þetta byrjar alla vega þannig. Við ætlum að sjá hvernig þetta gengur, hvort fólk taki eftir því,“ segir Fannar.

Fannar býst við að ljósin og bráðabirgðaskilti sem útskýrir þau, verði komið upp innan þriggja vikna.

Dagbækur lögreglu til grundvallar hættustigum

Til þess að finna út úr því við hvaða öldulag aðstæður eru hættulegar voru notaðar dagbækur lögreglu og atvikaskráning. 

„Henni ber alla vega mjög vel saman við spána í dag og litakvörðunina sem við erum með í gangi núna. Við erum að fara að setja upp myndavélakerfi líka. Með því getum við fylgst með því hvernig aldan er að haga sér svona nálægt landi sjónrænt, ekki bara með ölduspá punktanna. Getum líka kvarðað líkanið með því,“ segir Fannar.