Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Vísbendingar um minnkandi spennu á húsnæðismarkaði

Mynd: Barði Stefánsson / RÚV
Vísbendingar eru um minnkandi spennu á fasteignamarkaði. Færri mæta á opin hús og færri íbúðir seljast á yfirverði. Svo virðist sem vaxtahækkanir Seðlabankans séu farnar að hafa áhrif og færri hafi efni á að taka lán.

Húsnæðismarkaðurinn hefur verið til vandræða undanfarin ár. Hann hefur knúið áfram verðbólgu sem er sú hæsta í meira en áratug og hefur átt þátt í að Seðlabankinn hefur ítrekað hækkað stýrivexti. En nú gætu verið teikn á lofti um að spennan á fasteignamarkaði sé að minnka. 

„Það er fyrst núna sem við erum að sjá einhverjar vísbendingar um það. Það er of snemmt að fullyrða það algjörlega að það sé að hægja á, en vonandi,“ segir Kári S. Friðriksson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Kári segir að ekki hafi hægt verulega á húsnæðismarkaði síðan 2018.

Færri mæta á opið hús

„Það er örlítil fækkun í opnum húsum, það er að segja, í stað þess að það mæti tuttugu eða fimmtán, þá mæta tíu eða sjö. Það eru færri að mæta enda er verðið hátt. Maður veit svo sem ekki alveg, næstu tvo til þrjá mánuðir held ég að þetta haldi bara áfram að aðeins mýkjast. Verðið er orðið frekar hátt en stóra vandamálið er samt sem áður íbúðafjöldi,“ segir Hannes Steindórsson, formaður Félags fasteignasala. 

Hannes segir jafnframt að enn vanti íbúðir á skrá, þótt færri mæti á opið hús séu íbúðir að seljast hratt.

Í apríl var meðalsölutími á höfuðborgarsvæðinu 34 dagar. „Íbúðir til sölu hefur farið fjölgandi frá því í febrúar um 57% sem er vissulega góðs viti,“ segir Kári.

Færri hafi efni á að taka lán

Samkvæmt gögnum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur fjölda auglýstra eigna á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni aðeins fjölgað, en það skýrist ekki af nýjum íbúðum á markaði heldur aðallega auknu framboði af eldri íbúðum. Annars staðar á landsbyggðinni hefur auglýstum íbúðum fjölgað minna. „Síðan erum við aðeins farin að sjá að fjöldi íbúða sem selst yfir ásettu verði er að dragast saman en það er aðeins of stutt liðið til að fullyrða að þetta sé trend,“ bætir Kári við.

Skýringarnar segir Kári vera ný og strangari viðmið í greiðslumati fyrir verðtryggð lán og síðustu tvær stýrivaxtahækkanir Seðlabankans. „Núna um mánaðamótin mun fólk sjá það á greiðsluseðlinum sínum, fyrri hækkunina, seinni kemur væntanlega um mánaðamótin næstu. Þá er greiðslubyrði heimilanna að fara að hækka um tugi þúsunda. Þannig það eru færri sem hafa efni á því að taka lán.“