Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tyrkir, Svíar og Finnar funda með Stoltenberg

A police officer walk outside the NATO Summit building ahead of the summit in Madrid, Spain, Saturday, June 25, 2022. (AP Photo/Paul White)
 Mynd: AP
Leiðtogar Finnlands, Svíþjóðar og Tyrklands hittast á fundi með framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins í Madríd á morgun, daginn sem ársfundur NATO hefst þar í borg og daginn fyrir eiginlegan leiðtogafund bandalagsins.

Talsmaður Erdogans Tyrklandsforseta greindi frá þessu í gær. Hann sagði fundinn haldinn að undirlagi Jens Stoltenbergs, framkvæmdastóra NATO, sem ræddi síðast á laugardag við Erdogan um aðildarumsóknir Finnlands og Svíþjóðar að bandalaginu.

Tyrkir einir á móti inngöngu Finna og Svía

Mikill vilji er fyrir því í Atlantshafsbandalaginu að veita Svíum og Finnum skjóta inngöngu. Tyrkir einir hafa sett sig upp á móti því og þá sérstaklega aðild Svía vegna meints stuðnings þeirra við kúrdísk hryðjuverkasamtök. Vonast var til að unnt yrði að leiða ágreining ríkjanna til lykta fyrir leiðtogafundinn á miðvikudag og er fundurinn á morgun lokatilraun til þess.

Tyrkir hafa látið í það skína að tilgangslaust sé að reyna að fá þá til að samþykkja inngöngu Norðurlandanna tveggja áður en fundurinn hefst. Engu að síður þykir ljóst að leiðtogar annarra aðildarríkja munu reyna einmitt það, enda mikið í mun að sambandið sendi Rússum og Kínverjum skýr skilaboð um samstöðu og styrk bandalagsins.