Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tvöfalt fleiri flugferðum aflýst innanlands en 2019

27.06.2022 - 19:49
Mynd: Sunna Valgerðardóttir / RÚV
Rúmlega tvöfalt fleiri flugferðum hefur verið aflýst innanlands en á sama tímabili árið 2019. Óveður, bilanir og heimsfaraldur eru meðal annars sagðar ástæður röskunar. Icelandair hefur aflýst 448 flugferðum innanlands með innan við sjö daga fyrirvara það sem af er þessu ári.

Innanlandsflug Icelandair hefur fengið mikla gagnrýni undanfarna mánuði, sem snýr að því að flugi sé ýmist frestað eða aflýst með skömmum fyrirvara. Þá hefur þótt erfitt að nálgast upplýsingar og sveigjanleiki talinn vera lítill. 

Flestum flugum aflýst til eða frá Ísafirði

Frá áramótum hefur rúmlega 9 prósent flugferða til eða frá Akureyri verið aflýst, tæplega 12 prósent ferða til eða frá Egilsstöðum en 26,3 prósent ferða til eða frá Ísafirði. Til samanburðar var um fimm prósent ferða til eða frá Akureyri aflýst á sama tímabili árið 2019, rúmlega þremur prósent ferða til eða frá Egilsstöðum og fimmtán prósent ferða til eða frá Ísafirði.

Ef skoðuð er seinkun á flugi frá áramótum á þessu ári sést að 410 sinnum seinkaði flugi til eða frá Akureyri, eða tuttugu og sjö prósent flugferða á heildaráætlun. En einnig rúmlega tuttugu og tvö prósent ferða til eða frá Egilsstöðum en þar seinkaði flugi í 259 skipti. Flugi til eða frá Ísafirði seinkaði 139 sinnum, sem er líka um tuttugu og tvö prósent áætlaðra flugferða.

Slæmt veður aðal ástæðan

Í skriflegu svari Icelandair segir að aðalástæða raskana sé einstaklega óhagstætt veður fyrstu mánuði ársins. Fleira spili þó inn í, eins og viðhaldsframkvæmdir á flugvöllum, viðhald tveggja flugvéla, áhrif heimsfaraldurs og aukin eftirspurn. Nú sé staðan hins vegar orðin betri og innanlandsflug ætti að ganga vel á næstunni.

Afleitt að geta ekki gengið að þjónustu á góðu verði

Hávær umræða hefur verið á facebook-hópnum Dýrt innanlandsflug - þín upplifun, þar sem fólk deilir upplifun sinni á innanlandsflugi. Unnar Erlingsson, íbúi á Egilsstöðum segir verst að geta ekki treyst á þessar samgöngur. „Þetta eru almenningssamgöngurnar okkar við höfuðstað landsins og alla þjónustu sem við tökum líka þátt í að byggja upp þar. Þannig þetta eru hlutir sem verða að vera í lagi til þess auka líkur á tryggri búsetu og auka líkurnar á að hérna vilji fólk búa. “

„Ég myndi hvetja stjórnvöld til að grípa inn í, ef að einkafyrirtæki eins og Icelandair eða hvert annað sem tekur þetta að sér, ef það getur ekki sinnt þessu með betri hætti en raun ber vitni, þá þarf eitthvað meira að koma til,“ bætir Unnar við.