Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sagði mömmu, kærustu og bróður frá ríkisleyndarmálum

27.06.2022 - 00:48
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Lars Findsen, fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustu danska hersins, er sagður hafa verið afar lausmáll um hin ýmsu ríkisleyndarmál sem honum var treyst fyrir í krafti stöðu sinnar, og talað um þau við sína nánustu, vini og blaðamenn, samkvæmt frétt danska blaðsins Berlingske, sem rannsakað hefur málatilbúnaðinn á hendur honum.

Samkvæmt heimildum blaðsins er Findsen ákærður fyrir að hafa lekið - eða opinberað - ríkisleyndarmál í minnst níu tilfellum. Það mun hann hafa gert í samtölum við móður sína, bróður, kærustu og fyrrverandi kollega, sem ekki starfaði lengur hjá leyniþjónustunni. Auk þess er hann sakaður um að hafa lekið ríkisleyndarmálum í nokkra blaðamenn.

Mikil leynd yfir málflutningnum

Findsen var handtekinn í byrjun desember í fyrra, grunaður um að hafa lekið leynilegum upplýsingum. Hann hefur jafnan neitað sök og var látinn laus í febrúar eftir að landsréttur ákvað að ekki væri réttlætanlegt að halda honum lengur í gæsluvarðhaldi, þrátt fyrir rökstuddan grun um brot.

Fram til þessa hafa allar yfirheyrslur yfir Findsen og málareksturinn allur farið fram fyrir luktum dyrum, þannig að ákæruefni hafa ekki legið fyrir, þar til (mögulega) nú. Auk Findsens voru þrír starfsmenn leyniþjónustu hersins og lögreglunnar handteknir í tengslum við þetta sama mál. Eins og Findsen, þá hafa þeir verið látnir lausir þótt málinu sé hvergi nærri lokið.