Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rannsaka dularfullan dauðdaga ungmenna á bar

27.06.2022 - 19:59
Mynd: EPA-EFE / EPA
Lögregla í Suður-Afríku rannsakar dularfull dauðsföll ungmenna á yfirfullum bar um helgina. Grunur er um að eitrað hafi verið fyrir þeim.

Sautján ungmenni hnigu niður og létust á barnum, sem er í borginni East London, á laugardagsnótt. Fjögur til viðbótar létust síðar á sjúkrahúsi. Málið er allt hið dularfyllsta. Engin merki eru um að þau hafi troðist undir í mannfjölda. Skemmtistaðurinn er á tveimur hæðum og var yfirfullur þessa nótt. Þrjátíu og einn var fluttur á spítala. Þau sem lifðu af hafa lýst því að hafa fundið kæfandi lykt, líkt og af spreyi, áður en fólk hafi áttað sig á að hætta væri á ferðum. 

Grunur er um að gestir skemmtistaðarins hafi neytt einhvers sem dró þá til dauða. Annaðhvort að þeir hafi drukkið, borðað eða andað banvænu efni að sér. 

Í Suður-Afríku þarf fólk að hafa náð átján ára aldri til að mega neyta áfengis. Meðal þeirra sem létust voru þrettán ára gömul börn. Talið er að ungmennin hafi komið saman á staðnum til að fagna próflokum. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir