Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Loka fyrir rafmagn ef fólk finnur sér ekki raforkusala

27.06.2022 - 08:15
Mynd: RÚV / RÚV
Fólk sem hefur ekki valið sér raforkusala má búast við að lokað verði fyrir rafmagnið á næstu dögum.

Áður fyrr beindi Orkustofnun fólki til bráðabirgða í viðskipti við raforkusala, ef fólk hafði ekki valið raforkusala innan sjö daga eftir að það flutti búferlum. Það var gert til að tryggja að heimili yrðu ekki rafmagnslaus.

N1 rafmagn var valið til að sinna þessum viðskiptum. Fyrirkomulaginu var breytt þegar í ljós kom að mun hærra raforkuverð var innheimt hjá þessum þrautavaraviðskiptavinum en þeim almennu. 

Nú hefur fólk 30 daga til að velja sér sjálft nýjan raforkusala. „Þú átt að velja þér raforkusala, því annars máttu ekki nota rafmagnið samkvæmt lögum,“ sagði Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

„Og margir hafa brugðist við, sem betur fer, en því miður er stór hópur sem ekki hefur gert það og þá samkvæmt lögum þá verður að loka fyrir af því að það bara má ekki afhenda rafmagnið nema að það sé samningur til staðar við raforkusölufyrirtæki,“ segir Lovísa. 

Starfsfólk dreifiveitna vinnur nú að því að hafa samband við notendur og reyna að koma í veg fyrir að allt í einu verði rafmagnslaust hjá þeim. 

„Gullna reglan er sú að ef þú hefur verið á íbúðamarkaði í einhvern tíma eða hefur verið að fá reikninga og aldrei fengið viðvaranir, það er nú þannig að það er ekki lokað fyrir rafmagnið nema undangengnum miklum viðvörunum. Starfsfólk dreifiveitna hefur setið sveitt við að senda tölvupósta, senda sms, hringja í fólk. Þetta eru bara heilu stöðugildin af því að við viljum ekki loka fyrir.“ sagði Lovísa Árnadóttir í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

Fréttin hefur verið uppfærð.