Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hvenær ætla stelpur að hætta að skrifa um tilfinningar?

Mynd: RÚV / RÚV

Hvenær ætla stelpur að hætta að skrifa um tilfinningar?

27.06.2022 - 17:00

Höfundar

„Passaðu bara að fara ekki að skrifa með píkunni á þér,“ er ein þeirra setninga sem sögð hefur verið við unga kvenhöfunda. Lesendum hættir oft til að gera ráð fyrir að skáldsakpur kvenna sé sjálfsævisögulegur, mun fremur en karla, og að þær skrifi einungis um tilfinningar sínar.

Fordómarnir segja að skrif kvenna séu persónuleg, náin, ástrík og heimakær líkt og hin suður-ameríska Isabel Allende komst að orði eitt sinn. Lesendur hafa líka löngum gert ráð fyrir að skáldskapur kvenna sé byggður algjörlega á lífi höfundarins, mun fremur en skáldskapur karla. Og fá þær mjög oft spurningar á borð við: Er þetta ekki bara þú? þegar um hreinan uppspuna er að ræða.  

Þær Auður Jónsdóttir, Eva Rún Snorradóttir og Fríða Ísberg, rithöfundar, ræddu við Önnu Maríu Björnsdóttur í Orðum um bækur á Rás 1 um þeirra reynslu þegar kemur að viðtökum lesenda. 

Meira prívat þegar hinsegin kona skrifar um kynlíf 

Eva Rún, sem skrifar út frá eigin raunveruleika að miklu leyti, segist finna mun á viðtökum á bókum kvenna, þá sérstaklega hinsegin kvenna, og karla. „Ég upplifi eins og það sé svolítið mikið prívat þegar lesbía skrifar um erfiðleika í hjónabandi eða kynlífi eða einhverju svona,“ segir Eva. „Það er dálítið forvitnilegt að sjá að það þótti svona prívat. Því þetta er ekki ævisaga, heldur er þetta skáldskapur sem er unninn upp úr lífi. En þetta er samt alltaf skáldskapur.“  

„Ég held að þegar menn skrifi svoleiðis þá er það ekki prívat,“ segir Eva og bætir við að kannski upplifi gagnkynhneigðar konur þetta ekki heldur, eða ekki jafn mikið. „Það var mjög mikið við viðtökurnar sem mér fannst forvitnilegt.“  

Lifa í karlægum heimi 

Hún segir að bækur hennar, þá sérstaklega Óskilamunir, séu ekki endilega metnar út frá gildum skáldskapar og að lítið sé rýnt í verkin á þeim forsendum. „Mér finnst eins og þetta sé einhvers konar kerfislæg skekkja í viðhorfum og hvernig við lítum á bækur,“ segir Eva. „Mér fannst ekki að horft væri á formið og hvað þetta er.“ 

Eva rifjar upp að hafa séð umfjöllun eitt árið þar sem viðkomandi sagði: „Þessi jól eru svo margir að skrifa um sjálfa sig,“ eins og öll verk sem eru að einhverju leyti byggð á persónulegri reynslu séu sett undir einn hatt. „Að skrifa út frá sjálfum sér er aðferð sem kallar á mörg mismunandi form.“ 

„Kannski tengist þetta líka því að konur lifa í karlægum heimi og hinsegin konur lifa í karlægum heimi sem er líka heterónormatívur. Og við þurfum að navigate-a okkur í gegnum raunveruleikann sem er skáldskapur,“ segir Eva. „Við erum meira ókunnug í þessu heldur en kannski karlmaðurinn og þá er þetta okkar aðferð kannski meira. Allavega mín.“ 

Fólk hugsi um hana og manninn hennar í ákveðnum senum 

Þegar silúettu aðalpersónu svipar til höfundar hættir lesendum oft til að slá höfundi og söguhetjunni saman. Fríða segir flesta gerast seka um þetta þegar bækur eru lesnar, sérstaklega þegar á við eina persónu sagða út frá sjónarhorni fyrstu persónu. „Þegar ég les Paul Auster bækurnar þá hugsa ég um Paul Auster, það gerist alveg við bæði konur og karla,“ segir Fríða.  

„Við búum líka bara í svo ótrúlega litlu samfélagi hérna á Íslandi að það er miklu auðveldara að heimfæra þetta, af því að við erum með slúðursamfélag í kringum okkur,“ segir hún. Hún tekur þó fram að finni verulegan mun á viðtökum ljóðabóka og skáldsagna hjá sér. „Þegar það eru ljóð þá er algjörlega splæst saman í einn á móti einum.“  

Hún hefur þó verið heppin með fjarlægðina að gera vegna þess að verkin hennar hafa verið margradda. Fyrst gaf hún út smásagnasafn og síðan skáldsögu með fjórum aðalpersónum. „Þannig það er ekki jafn mikið verið að klína karakterunum mínum á mig.“  

„En ég hef samt vissulega lent í því að svona karakterar úr Kláða til dæmis, að fólk sagði við mig: Já ég roðnaði bara þegar ég las kynlífsatriðin því ég ímyndaði mér bara þig og manninn þinn,“ segir Fríða. Hún fái því gjarnan spurninguna: Eru þetta þið? Stundum geri fólk jafnvel ráð fyrir að hún hafi fermst í Grafarvogskirkju vegna þess að persóna úr bókinni hennar hafi gert það, þá þurfi hún að leiðrétta og segja: „Nei, það var karakterinn minn.“ 

„Það sem hefur kannski pirrað mig mest í gegnum tíðina með þetta er að við gerumst öll sek um þetta en kynin eru kannski ekki alveg spurð eins út í þetta,“ segir Fríða og bætir við að konur eru frekar spurðar hvort skáldskapurinn sé sjálfsævisögulegur heldur en karlmenn. „Og það gefur til kynna einhvers konar skekkju. Að karlsnillingurinn sé þetta súbjekt en konan er alltaf að taka úr eigin reynsluheimi af því að hún er einhvern veginn ekki í handanverunni.“ 

Hvenær ætla þessar stelpur að hætta að skrifa um tilfinningar? 

Auður segir að í raun byggi allir höfundar á eigin reynsluheimi. „Því þú hefur ekkert nema þinn hugarheim til að spinna úr og með,“ segir hún. „Hins vegar er það með þetta skáldlega take á hlutina sem á kannski til að vera smættað meira, eða hefur verið það í gegnum tíðina, þegar konur eiga í hlut.“ Og verkum sé skipt eftir alvöru skáldskap og ekki alvöru skáldskap. 

„Ég var til dæmis að hugsa það um daginn, með höfunda eins og Kristínu Eiríksdóttur og Guðrúnu Evu Mínervudóttur sem eru báðar mjög framúrstefnulegar í að fanga ákveðið lingó í mannssálinni,“ segir Auður. „Svo hittir maður einhver kall sem segir: Hvenær ætla þessar stelpur að hætta að skrifa um tilfinningar og fara að skrifa um alvöru skáldskap?“  

„En hvað er alvöru skáldskapur nema tilfinningar?“ spyr Auður. „En þetta eru líka móttökurnar og viðhorfið, og fer kannski eftir því við hvern maður talar.“ Hún rifjar upp að hafa skrifað í eina af sínum bókum: „Þegar kona skrifar um innra líf sitt þá er það chick-lit en ef karlmaður skrifar það þá er það tilvistarstefna.“ Hún segir að einhver upplifun hljóti að hafa fengið hana til þess að skrifa þessa setningu á sínum tíma.  

Skáldsögur lesnar eins og Séð og heyrt 

„Bókmenntastofnunin er náttúrulega feðraveldi, og það er ekkert langt síðan konur fóru aðeins, og svo æ hraðar og sterkar, að taka sér pláss þar inni,“ segir Auður og samsinnir Fríðu að á Íslandi þrífist slúðursamfélag. „Þannig að það er ekki bara að þú sért kona heldur er það bara með allar skáldsögur að fólki hættir rosalega til að segja: Já er þetta Jói frændi eða er þetta Didda, eða bara einhver,“ segir hún. „Þetta er oft svona Séð og heyrt lestur á skáldsögum.“ 

Skáldsögur geta leikið að einhverju sem er raunverulegt en verið á sama tíma hreinn skáldskapur. „En hér er ákveðin viðleitni í þessa átt sem heftir skáldskap,“ segir Auður. Í raun sé hægt að vera mun frjálsari þegar kemur að verkum sem eru hreinn skáldskapur og fantasía heldur en í einhverju sem gefur til kynna að byggt sé á raunverulegum atburðum.  

„Þú skrifar alltaf sjálfsævisögulega“ 

„Það er eins og fólk eigi erfitt með að gefa þennan listræna- og skáldlega slaka,“ segir Auður. Hún rifjar upp atvik þegar maður sem hafði unnið lengi hjá forlaginu þar sem hún gaf út bækurnar sínar sagði við hana: „Þú skrifar alltaf sjálfsævisögulega.“ Á þessum tímapunkti hafði Auður sent frá sér í kringum tólf bækur og sagði: „Nei, það eru bara tvær af þeim sem leika að skáldævisöguforminu.“  

„Hinar ellefu eða tólf voru það ekki, en þetta límist svo við verkin ef þú hefur gert þetta einu sinni,“ segir Auður. „En hins vegar ef þú ert með einhverja sérstaka kvenlega reynslu, eins og bara þú ert kannski að skrifa um áfall eða eitthvað svona hugmyndalegt dilemma sem tengist því að vera kona. Þá er strax mjög nærtækt að segja: Já hún er bara að fjalla um sig.“ 

Ekki chick-lit heldur naflaskoðun 

Við þetta bætir Fríða að önnur afgreiðsla við slíkan boðskap sé naflaskoðunin. „Nýja afgreiðslan sem er ekki chick-lit heldur: Þetta er naflaskoðun,“ segir hún. „Og það er kannski ríkara í kvennabókmenntum að fara inn á við. Og ég elska þannig bækur.“ Auður skýtur inn í að karlmenn fari einnig mikið inn á við.  

„Ég held að þetta sé fjarlægðin sem hraði frásagnarinnar og framvindu hefur,“ segir Fríða. „Eins og þessi bandaríska skáldsaga sem er þessi mikla frásögn þar sem karakter er að fara frá A til B til C til D. Það er eins og það sé meiri fjarlægð heldur en þegar það er þessi naflaskoðun,“ segir Fríða og telur að konur geti alveg eignað sér þetta hugtak. „En þá er frekar hugsað: Já, þetta er bara höfundurinn.“ 

Auður segir að naflaskoðunin geti einnig verið mjög framsækin, ögrandi og upplýsandi. „Eins og hefur verið mikið í bókmenntum eftir konur síðustu tuttugu, þrjátíu árin þar sem það eru mjög sterkar skáldkonur sem hafa farið mjög fram í,“ segir hún og bætir við að þau verk hafi endað á því að verða stórir bókmenntalegir viðburðir bæði í þeirra eigin höfundarverki og alþjóðlega. 

„Og hvað eru bókmenntir annað en að skoða mannsandann?“ segir Fríða. „Af hverju er verið að gera lítið úr því?“ 

Ekki fara að skrifa með píkunni á þér 

„Það er eins og það sé pínu óþol gagnvart naflaskoðun og drama, einhverju uppgjöri við tilfinningar,“ segir Eva. Hún og vinkona hennar hafi verið að velta þessu fyrir sér en áttuðu sig á því að slíkt búi í öllu afþreyingarefni, til að mynda glæpasögum. Þar sé alltaf ein frænkan eða dóttirin sem vilji skoða tilfinningarnar. „Þetta er meira svona eitthvað óþol við að fara inn á við,“ segir Eva.  

Hún segir að bækur samtímakvenna fjalli að miklu leyti um sama umfjöllunarefni en hafni þessum bókmenntaaðferðum sem eigi rætur að rekja til feðraveldisins. „Það er svo mikið power í því að hafna þeim og skrifa þetta beint út, koma með það umbúðalaust.“ 

„Það eru líka alls konar setningar sem hafa verið sagðar í gegnum tíðina,“ segir Auður. „Þegar ég var ung að skrifa þá var sagt við mig: Passaðu bara að fara ekki að skrifa með píkunni á þér. Og um daginn var sagt við mig: Hvenær ætlarðu að fara að skrifa evrópska skáldsögu?“  

„Þannig að þetta loðið alltaf við, einhverjar hugmyndir fólks um hvað skáldskapur eigi að vera. En nútíma skáldskapur er bara allaveganna, úti um allt og allt má,“ segir Auður. „Ég myndi hundrað prósent segja það að naflaskoðunin í dag, 2022, sé það mest spennandi sem er að gerast í samtímabókmenntum,“ bætir Fríða við. „Eins og með Rachel Cusk. Þetta er nýjabrumið í dag.“ 

Einn höfundur sendir heila þjóð í sjálfsuppgjör 

Undir aldamótin kom rithöfundurinn Karl Ove Knausgård með sína sjálfsævisögulega doðranta í fleirtölu og breytti að vissu leyti landslagi bókmennta í Skandinavíu. Auður segir þó að sjálfsævisögulegur skáldskapur hafi lengi verið mjög fyrirferðamikill í Skandinavíu og þá sérstaklega með kvennabyltingunni. „Svo mér hefur alltaf þótt áhugavert hvort það hafi þurft svona ungan og snaggaralegan karlmann til að ná þessari vinsæld,“ segir hún. „En af því að hann verður svo frægur og vinsæll þá kannski normalíserar hann þetta eitthvað.“  

Auður tekur sem dæmi að þegar hinn írski rithöfundur Frank McCourt gaf út verkið Angela’s Ashes hafi það orðið að einhverju fyrirbæri í Írlandi að skrifa slíkar bækur sem róma erfiða æsku. „Það er kannski það sama með Knausgård, núna hríðvilja allir ná sínu take-i á þetta.“ 

Fríða segist einnig hafa heyrt að Norðmenn séu í vandræðum vegna þess að þeir komist ekki frá fjölskylduuppgjörinu, eftir Knausgård. Þessar bækur seljist svo rosalega vel. „Þar kemur maður inn á raddvaldið í skáldsögum. Hvað þær geta haft mikil áhrif, ef þær á annað borð ná vinsældum, að heil þjóð fari bara í sjálfsuppgjörið,“ bætir Auður við og hlær.  

Lék á væntingar lesenda en gaf ekki neitt  

Skáldsagan sjálfsævisögulega er þó á einhverju undanhaldi og þykir jafnvel ekki lengur vera í tísku. Auður minnist þess þegar hún var stödd í Kaupmannahöfn og lýsti íslensku verki sem sjálfsævisögu og mætti miklum andvörpum. „Ég talaði einmitt við tvo danska höfunda á bókmenntahátíð sem voru báðir að gera upp föðurmissi og það var eins og þau væru að afsaka sig fyrir að vera að skrifa út frá sinni reynslu,“ bætir Fríða við. 

„Þetta þarf líka bara einhverja þróun og vinnu með formið,“ segir Eva. Hún las nýverið viðtal við rithöfundinn Rachel Cusk þar sem fram kom að hún tryði ekki á persónusköpun. „Núna er ég örugglega ekki að fara rétt með þetta, en eins og ég skildi það og tók frá þessu er að við erum öðruvísi fólk í dag. Við erum í sjálfsvinnu og flöktandi,“ segir Eva um þróunina á skáldforminu. 

„Þetta er líka fagurfræðileg afstaða hjá henni,“ bætir Fríða við. Cusk hafði gefið út nokkrar bækur sem byggðu mjög opinberlega á henni sjálfri, um skilnað hennar og upplifun af því að vera móðir. Svo kemur allt í einu tilkynning að væntanleg sé ný bók frá Rachel Cusk sem byggi á henni og heiti Outline. „Síðan er þetta negatífa af því að það eru tíu kaflar, sem fara bara í samtöl við tíu mismunandi persónur og við fáum aldrei að heyra hvað aðalkarakterinn segir.“ Það sé einungis sagt frá viðbrögðum viðmælenda við aðalpersónunni og skoðun þeirra á henni út frá samtalinu. „Hún er að leika svo mikið á þetta að við erum að búast við að fá eitthvað djúsí um Rachel Cusk en við fáum ekki neitt. Nema viðbrögð samfélagsins við henni og aldrei inn fyrir. Við fengum bara útlínurnar.“ 

„Eins og ég sé pínu óþekk þegar ég gef út bók“ 

Oft hafa lesendur ákveðnar væntingar í garð höfunda líkt og hin írska Eimear McBride, rithöfundur, hefur skrifað um í ritgerðum sínum. Hún segir að lesendur ætlist frekar til persónulegri upplýsinga frá kvenkynsrithöfundum og þyki í raun ófyrirgefanlegt þegar þær halda aftur af þeim. Sem dæmi um þetta má nefna ritdóm Gauta Kristmannssonar um verkið Óskilamuni eftir Evu Rún Snorradóttur. Þar skrifar hann:

„[S]ögukonan segir við lesendur sína: „Það sem ég hafði að segja er of persónulegt til að greina frá því hér.“ Dálítill löðrungur á lesendur sem kalla ekki allt ömmu sína þegar hér er komið í lestrinum, en hún segir einungis frá því sem aðrir gerðu í þessum símtölum.“ 

„Við erum í einhverju svona binary-samfélagi hvað allt varðar,“ segir Eva. „Við þurfum að þjálfast upp í að það sé eitthvað millibil. Út af því að maður segir: Já, ég var að skilja, ég er lesbía, og eitthvað svona. En samt er allt undið upp á og maður beitir aðferðum skáldskaparins á eigið líf.“ 

„Fólki hættir til að rugla saman opnuviðtali í DV og skáldsögu,“ bætir Auður við. „Og ætla að fá sama stöffið úr því.“ Eva segir að samfélagið þurfi að átta sig á því að það sé eitthvað, og kannski meira, þar á milli. 

„Ég upplifi meira eins og ég sé bara pínu óþekk þegar ég gef út bók,“ segir Eva. „Bara núna er ég búin að bera allt út á torg, út af þessu.“ Henni líði hálfpartinn eins og hún sé að birta dagbókina sína vegna viðtökum lesenda. „Sem er svo rosalega langur vegur frá. Það er alltaf búið að vinna þetta jafn mikið og skáldsögu, beita aðferðum skáldskaparins á þetta.“ 

„Foreldrar mínir urðu bara meira sárir“ 

 Fríða segist einnig hafa upplifað svipaðar tilfinningar þegar hún gaf út fyrstu ljóðabókina sína, Slitförin. „Því þetta eru ljóð og ég var að skrifa um samband ljóðmælanda við móður og foreldra,“ segir hún. „Og ég náttúrulega byggi þetta á mínu uppgjöri, auðvitað. En ég reyndi eins og ég gat að taka söguþráðinn og breyta staðreyndum, bókstaflega, til að fá fjarlægð.“ 

„Og það voru meiri mistök ef eitthvað var,“ segir Fríða vegna þess að fólk tók verkinu algjörlega sem hennar ævi, vegna þess að þetta var ljóðabók. „Ég sagði í öllum viðtölum að ég hefði skáldað ljóðsögu - og það skipti engu máli.“ Hún segir að foreldrar hennar hafi eiginlega særst meira vegna þess að þarna var verið að afbaka þeirra staðreyndir líka. 

„Það er einmitt með afbökunina, því hún er einmitt svo stór partur í því að skálda,“ segir Auður. „Stundum vill fólk líka meina að það hafi verið í skáldsögu sem það var ekkert inni í. Það heldur að það hafi verið fyrirmynd þó þau séu það ekki. Fólk seilist alveg langt í skilningi sínum.“ 

Konur þurfi að skrifa meira um það sem fólki þykir prívat  

Auður segist ekki veigra sér endilega við að festa niður á blað ákveðnar sögur vegna þessara væntanlegu viðbragða en hún er þó meðvituð um þau. „Fyrir mér er það ekki hvað ég skrifa heldur hvernig ég skrifa það,“ segir hún. „Í rauninni er maður frjálsari í pjúra skáldskap heldur en einhverju sem hefur þessa skírskotun. Maður er alltaf með einhverja mælistiku á raunveruleikann, hverju maður getur lifað með.“ 

„Ég fæ bara út úr þessu að ég þarf að skrifa, og ekki bara ég heldur þurfa fleiri konur að skrifa um kynlíf og hjónabandsörðuleika,“ segir Eva. „Mér finnst bara að það sem fólk upplifir sem prívat að það þurfi meira af því.“ Henni þykir mikilvægt að allir sem eru að einhverju leyti þræðir í skáldverkum hennar lesi þau áður en hún birtir. „Mér finnst bara mikilvægt að þjálfast upp í þessu millirými að geta tæklað raunveruleika okkar með verkfærum skáldskaparins.“ 

Rætt var við þær Auði Jónsdóttur, Evu Rún Snorradóttur og Fríðu Ísberg í Orðum um bækur á Rás 1. Viðtalið má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér að ofan.  

Tengdar fréttir

Tónlist

„Ég fæddist sextug og yngist með hverju árinu“

Bókmenntir

Fræ sem frjóvga myrkrið – Eva Rún Snorradóttir

Bókmenntir

Óraunverulegt að ganga í gegnum skilnað