Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

38 sjálfsvíg á síðasta ári

27.06.2022 - 22:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hreiðar Þór Björnsson - RÚV
38 svipti sig lífi á síðasta ári, 26 karlar og tólf konur. Þetta kemur fram í tölum frá Embætti landlæknis. Er það jafnt meðaltali síðustu fimm árin, 2017-2021.

Árið 2019 féllu 39 fyrir eigin hendi en talan var komin upp í 47 árið 2020.

Í tilkynningu Landlæknisembættisins segir að vegna fámennis þjóðarinnar þurfi ekki mikið til að tölur sveiflist nokkuð milli ára. Því sé heppilegra að líta til meðaltals nokkurra ára frekar en breytinga milli einstakra ára til að skoða langtímaþróun. Talsvert miklar sveiflur þurfa að verða til þess að hægt sé að staðhæfa að um marktæka breytingu sé að ræða.

Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, sagði í samtali við fréttastofu í apríl að geðheilsa unga fólksins í landinu væri áhyggjuefni. 81 prósent gagnfræðaskólanema hafi í könnun árið 2014 metið andlega heilsu sína mjög góða eða góða. Hlutfallið hafi hrapað niður í 57 prósent árið 2021. Þá hafi geðlyfjanotkun aukist og líðan ungs fólks versnað.

Mikilvægt er að þeir sem glíma við sjálfsvígshugsanir segi einhverjum frá líðan sinni. Hægt er að hafa samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717, eða á netspjalli 1717.is, við hjúkrunarfræðing í netspjalli á heilsuvera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta samtakanna s.552-2218.