
Vilja að G7 ríkin leggi Úkraínu til fleiri vopn
Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, skrifar á Twitter að G7 ríkin verði að bregðast við sprengjuárásinni á íbúðahverfi nærri miðborg Kænugarðs í nótt með frekari refsiaðgerðum og meira af þungavopnum. Vinna þurfi sigur á sjúkri heimsvaldastefnu Rússa.
This 7 y.o. Ukrainian kid was sleeping peacefully in Kyiv until a Russian cruise missile blasted her home. Many more around Ukraine are under strikes. G7 summit must respond with more sanctions on Russia and more heavy arms for Ukraine. Russia’s sick imperialism must be defeated. pic.twitter.com/0kn2hl7A4x
— Dmytro Kuleba (@DmytroKuleba) June 26, 2022
Sprengingarnar í Kænugarði urðu um klukkan hálfsjö í morgun að staðartíma, hálf fjögur í nótt að íslenskum tíma, um hálftíma eftir að loftvarnasírenur borgarinnar glumdu. Þykkan reyk lagði til himins frá hverfinu, þar sem lögregla lokaði stóru svæði, samkvæmt frétt AFP. Engar fregnir hafa borist af manntjóni.
Nýverið sendu Bandaríkjamenn nýtt og fullkomið eldflaugavarnakerfi til Úkraínu og leiðtogar G7-ríkjanna, sjö af öflugustu iðnríkjum heims, koma saman til fundar í München í Þýskalandi í dag, þar sem Úkraínustríðið og afleiðingar þess verða í brennidepli.