Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tók á móti milljónum evra í töskum og pokum

epa10028537 Britain's Prince Charles, the Prince of Wales, signs a visitor book during a visit to the Nyamata Church Genocide Memorial, outside Kigali, Rwanda, 22 June 2022. The Prince of Wales visits Rwanda to attend the Commonwealth Heads of Government Meeting (CHOGM).  EPA-EFE/EUGENE UWIMANA
Karl Bretaprins er höfuð fjölmargra mikilvirkra góðgerðasamtaka. Hér kvittar hann í gestabók við Nyamata-minnismerkið um þjóðarmorðið í Rúanda, þar sem hann var í opinberri heimsókn á dögunum. Mynd: EPA-EFE - EPA
Karl Bretaprins tók við þremur milljónum evra í reiðufé á fundum sínum með háttsettum katörskum stjórnmálamanni á árunum 2011 - 2015. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um góðgerðafélag prinsins og fjáröflunaraðferðir sem þar hafa tíðkast.

Frá þessu er greint í sunnudagsútgáfu breska blaðsins The Times (áskriftarblað) í dag.

Sheikh Hamad Bin Jassim bin Jaber Al-Thani var forsætisráðherra Katars frá 2007 til 2013. Hann er einn ríkasti maður heims og hefur verið kallaður „maðurinn sem keypti Lundúnir“ í bresku götupressunni, auk þess sem hann er eigandi franska stórliðsins Paris Saint Germain svo eitthvað sé nefnt.

Seðlabúnt í ferðatösku og innkaupapokum

Samkvæmt skýrslunni sem Times vitnar til afhenti hann Karli Bretaprins í þrígang eina milljón evra í reiðufé; einu sinni í stórri ferðatösku, öðru sinni í íþróttatösku og þriðja sinni í innkaupapokum frá hinni fornfrægu Fortnum & Mason verslun, sem löngum hefur séð konungsfjölskyldunni bresku fyrir hinum ýmsum nauðþurftum.

Þrjár milljónir evra jafngilda um 420 milljónum króna á gengi dagsins. Mun það hafa verið að ósk Al-Thanis, sem þessi höfðinglegi styrkur var afhentur með þessum hætti, og alltaf að prinsinum viðstöddum. 2015 fór afhendingin fram á einkafundi þeirra tveggja í Clarence House, heimili og skrifstofu prinsins í Lundúnum. 

Ekki ólöglegt en óheppilegt þó

Í yfirlýsingu frá talsmanni skrifstofu Karls Bretaprins og góðgerðasamtaka hans  segir að peningarnir sem afhentir voru á þeim fundi hafi óðara verið „afhentir góðgerðasamtökum prinsins“ og að jafnan hafi verið séð til þess að allra formsatriða væri gætt til hins ýtrasta. Fram kemur að þetta eigi við um allar greiðslurnar  þrjár og að ekki sé grunur um að þær hafi  verið ólöglegar.

Málið þykir engu að síður vandræðalegt fyrir Karl og koma upp á versta tíma. Skrifstofa prinsins hefur staðið í ströngu við það að undanförnu að bera af sér sakir um að þar hafi tíðkast fjáröflunaraðferðir sem kallaðar hafa verið „cash for access“ sem snara má með „greiðsla fyrir greiða“ að breyttu breytanda.

Fjáröflunarleiðir samtaka prinsins undir smásjá

Lundúnalögreglan og eftirlitsstofnun ríkisins með starfsemi góðgerðasamtaka hafa fjáröflunaraðferðir samtakanna til rannsóknar. Beinist sú rannsókn meðal annars að því, hvort rausnarlegir velgjörðarmenn samtakanna hafi fengið eitthvað meira fyrir örlætið en þakkir prinsins, svo sem titla eða aðrar vegtyllur.

Sjá líka: Lögregla rannsakar góðgerðasjóð Karls Bretaprins

Michael Fawcett, fyrrverandi aðstoðarmaður Karls og framkvæmdastjóri eins góðgerðafélaga hans, sagði af sér í fyrra vegna ásakana um að hann hafi þegið ýmsar gjafir gegn því að liðka til fyrir ríkisborgararétti, titlum og öðru fyrir erlenda auðkýfinga. 

Samtökin hafa fullyrt að hert hafi verið á öllum reglum um fjárframlög til góðgerðasamtaka prinsins á síðustu árum og að öllum lögum og reglum þar að lútandi sé nú fylgt út í ystu æsar.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV