
Sprengjum varpað á Kænugarð
Sprengingarnar urðu um klukkan hálfsjö í morgun að staðartíma, hálf fjögur í nótt að íslenskum tíma, um hálftíma eftir að loftvarnasírenur borgarinnar glumdu. Þykkan reyk lagði til himins frá hverfinu, þar sem lögregla lokaði stóru svæði, samkvæmt frétt AFP.
Engar fregnir hafa borist af manntjóni en tilkynnt hefur verið um sært fólk í og við tvær íbúðarblokkir. Sjúkra- og björgunarlið er á vettvangi og verið að rýma blokkirnar, að sögn borgarstjórans, sem óttast að fólk hafi látið lífið í árásinni. „Björgunarliðið hefur dregið sjö ára stúlku út úr rústunum. Hún er á lífi. Nú reyna þeir að bjarga móður hennar,“ skrifar Klitsjko.
Þrjár vikur eru frá því að Rússar beindu síðast eldflaugum og sprengjum að höfuðborginni sjálfri. Hins vegar hafa útbæir og nærliggjandi þorp oft verið skotmörk Rússa á þeim tíma og síðast í gær, eins og fram kom í ávarpi Zelenskys Úkraínuforseta í gærkvöld.
Fréttin var uppfærð klukkan 07.40