Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sprengjum varpað á Kænugarð

26.06.2022 - 06:26
epa10026458 A woman walks in front of a residential building that was damaged during the Russian attack, in Borodyanka, Kyiv region, Ukraine, 21 June 2022. Towns and villages in the northern part of the Kyiv region became battlefields, heavily shelled, causing death and damage when Russian troops tried to reach the Ukrainian capital Kyiv in February and March 2022. On 24 February Russian troops entered Ukrainian territory starting a conflict that has provoked destruction and a humanitarian crisis.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
Kona á gangi við íbúðarblokkir í bænum Borodyev í Kiyv-héraði, sem skemmdust í loftárás Rússa fyrir nokkru.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjórar miklar sprengingar urðu í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu í rauðabítið. Fréttamenn AFP í borginni segja sprengju eða flugskeyti hafa hæft blokk í íbúðahverfi nærri miðborginni og reyk leggja frá eldi sem þar kviknaði. Vitali Klitsjko, borgarstjóri, segir líka frá því á samfélagsmiðlinum Telegram að sprengjum hafi verið varpað á höfuðborgina og segir fólk í rústum tveggja íbúðarblokka.

Sprengingarnar urðu um klukkan hálfsjö í morgun að staðartíma, hálf fjögur í nótt að íslenskum tíma, um hálftíma eftir að loftvarnasírenur borgarinnar glumdu. Þykkan reyk lagði til himins frá hverfinu, þar sem lögregla lokaði stóru svæði, samkvæmt frétt AFP. 

Engar fregnir hafa borist af manntjóni en tilkynnt hefur verið um sært fólk í og við tvær íbúðarblokkir. Sjúkra- og björgunarlið er á vettvangi og verið að rýma blokkirnar, að sögn borgarstjórans, sem óttast að fólk hafi látið lífið í árásinni. „Björgunarliðið hefur dregið sjö ára stúlku út úr rústunum. Hún er á lífi. Nú reyna þeir að bjarga móður hennar,“ skrifar Klitsjko.

Þrjár vikur eru frá því að Rússar beindu síðast eldflaugum og sprengjum að höfuðborginni sjálfri. Hins vegar hafa útbæir og nærliggjandi þorp oft verið skotmörk Rússa á þeim tíma og síðast í gær, eins og fram kom í ávarpi Zelenskys Úkraínuforseta í gærkvöld. 

Fréttin var uppfærð klukkan 07.40