Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Forn skáli á Stöð rannsakaður eins og glæpavettvangur

26.06.2022 - 08:35
Vísbendingar eru um að fólk sem dvaldi á Stöðvarfirði fyrir eiginlegt landnám hafi einkum komið til að vinna lýsi á Austurlandi. Í sumar hafa fornleifar í firðinum verið rannsakaðar eins og glæpavettvangur og fjöldinn allur af DNA-sýnum verið tekinn úr jarðvegi. 

Í Stöð á Stöðvarfirði eru fornleifafræðingar að störfum áttunda sumarið í röð. Þeir rannsaka landnámsskála og ekki síður enn eldri skála sem leyndist þar undir og er samkvæmt aldursgreiningu frá því fyrir sögulegt landnám. 

„Þessi skáli er túlkaður af mér sem útstöð,“ segir Bjarni F. Einarsson, doktor í fornleifafræði. „Þetta er ekki landnámsbær. Þetta er ekki bóndabær heldur er þetta útstöð árstímabundin þar sem fólk kom til þess að vinna auðlindirnar sem hér var að finna og sigla svo heim með þá auðlind. Og vinnutilgátan er sú að sú auðlind hafi einkum verið lýsi. Hvort sem það var úr hval eða sel.“

Fleiri mannvirki gætu fundist

Það sem gæti stutt þá tilgátu eru soðholur sem fundust í allra næsta nágrenni. Frumniðurstöður úr DNA-rannsóknum benda til þess að hvalur hafi verið unninn bæði í útstöðinni og landnámsbænum. Vísbendingar eru um að enn eigi eftir að finnast fleiri mannvirki á svæðinu. Í sumar komu sérfræðingar frá Kaupmannahafnarháskóla og tóku mikið af DNA-sýnum en þetta mun vera í fyrsta sinn sem forn skáli er rannsakaður svo ítarlega á þennan hátt. Niðurstöðurnar verða ekki ljósar fyrr en eftir tvö ár og gætu meðal annars svarað hvort sama fólkið hafi verið í útstöðinni og landnámsbænum. 

„Þær gætu leitt allt mögulegt í ljós. Sýnin eru gríðarlega mörg í skálanum. Skálinn er beinlínis meðhöndlaður eins og glæpavettvangur. Þannig að allt sem fór fram í skálanum það ætti að birtast í einu eða öðru formi í DNA-inu sem við vitum að finnst í jarðveginum,“ segir Bjarni. „Þannig að við getum hugsanlega svarað spurningum eins og: Fólkið sem var hérna, hefur það einhver tengsl eða eru framandi einstaklingar í þessu mengi. Dýrin, bakteríurnar, pöddurnar, plönturnar. Allt þetta verður greint.“

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV