Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Amerísk stjarna snertir himinhvolfið

Mynd: Paramount Pictures / Paramount Pictures

Amerísk stjarna snertir himinhvolfið

26.06.2022 - 10:00

Höfundar

„Frábær flugatriði í háloftum og óvænt vending í lokakafla ásamt vel heppnaðri notkun á stjörnuímynd gera Top Gun: Maverick þó að skemmtilegri bíóupplifun,“ segir Gunnar Ragnarsson kvikmyndagagnrýnir Lestarinnar.

Gunnar Ragnarsson skrifar:

Seint koma sumir en koma þó. Top Gun: Maverick, síðbúin framhaldsmynd löðrandi sveitta sumarslagarans Top Gun (1986, Tony Scott), sem gerði Tom Cruise að stórstjörnu er loks lent eftir 36 ár og með hvelli. Tregða Cruise við að setja á sig flugmannaumgjörðina á nýjan leik hefur vafalaust borgað sig en engin mynd á fjörutíu ára ferli leikarans hefur farið jafn vel af stað í kvikmyndahúsum. Á opnunarhelginni halaði Top Gun: Maverick inn 248 milljónum Bandaríkjadala á heimsvísu (tæpum 32 milljörðum íslenskra króna) og er hún fyrsta kvikmynd leikarans til að fella 100 milljóna múrinn á fyrstu sýningarhelgi á heimamarkaði. Þetta gerir hana jafnframt að tekjuhæstu kvikmynd án nokkurrar þátttöku ofurhetja frá því heimsfaraldur skall á. Þessar gríðarlegu vinsældir bera þess vitni að fullorðnir bíógestir eru aftur að skila sér í sætin í stórum stíl en rúmur helmingur áhorfenda myndarinnar er eldri en 35 ára. Ferill Cruise, sem vel að merkja er orðinn 59 ára gamall, hefur verið einkar farsæll og er eftirtektarvert að hann skuli enn vera á uppleið. Í bíólandslagi samtímans er eitt og sér merkilegt að stórmynd sem sækir aðdráttarafl sitt umfram allt til aðalstjörnu sinnar, en ekki stærri söguheims, skuli ná slíkum hæðum. Cruise hefur verið kallaður síðasta kvikmyndastjarnan og þó það sé ofsögum sagt er hann líklega síðastur sinnar tegundar, afsprengi tíma þegar kvikmyndastjörnur höfðu meira vægi innan menningarinnar, þénuðu meira og drógu, einar og sér, áhorfendur í kvikmyndahús.

Tilurðarsaga kvikmyndastjörnu

Höfundar Top Gun: Maverick gera sér vel grein fyrir sérstöðu Cruise og felst slagkraftur verksins ekki síst í hliðstæðum og samsömun stjörnuímyndar leikarans við titilpersónuna. Cruise sló fyrst í gegn í Risky Business (1983, Paul Brickman) sem bíræfinn forréttindapjakkur í leit að stuði í fjarveru foreldra sinna en eftir tvö óvinsæl hliðarspor greipti kappinn sig loks í poppvitundina í hlutverki gauragaursins og undraflugmannsins Mavericks sem sækir Top Gun, æðsta flugskóla Bandaríkjahers, ásamt stæltum og myndarlegum jafnokum sínum í greininni. Líkt og dulnefnið gefur í skyn sker hinn áhættusækni og sperrti Maverick sig úr fjöldanum, í háloftunum sem og á jörðu niðri. Hann fylgir hvorki reglum né fyrirmælum yfirmanna heldur gerir sitt ítrasta til að vera besti og fljótasti flugkappinn.

Frásögn Top Gun af bræðralagi og samkeppni ungra karlmanna sem leggja allt að veði til að ná markmiðum sínum passaði fullkomlega inn í tíðaranda Reagan-áranna í Bandaríkjunum þegar einstaklings- og neysluhyggja tröllreið öllu með breikkandi bili milli stétta og tilurð hinna ofurríku. Kvikt og litríkt handbragð breska leikstjórans Tonys Scott, sem ól manninn í auglýsingagerð ásamt Ridley bróður, var í takti við byltingu tónlistarmynda MTV-stöðvarinnar og sýndi drápsvélar háloftanna á lokkandi máta, eins og dans býflugna eða ballet. Poppkornsslóð Top Gun vísar í margar áttir og sýnir fram á mikla þýðingu textans innan dægurmenningar. Kvikmyndin hefur verið eftirminnilega greind ýmist sem söngleikur (þar sem flugatriðin eru söngatriði og flugvélarnar dansarar), sem áróðurstæki fyrir bandaríska herinn (þegar myndin var sýnd sendi bandaríski sjóherinn fulltrúa sína í anddyri kvikmyndahúsa til þess að skrá nýliða) eða sem hómó-erótískur texti þar sem berir karllíkamar í sturtu, skiptiklefa og strandblaki ásamt dansi fallískra flugvéla eru sýnileg einkenni bældrar ástar og losta milli karlmanna. Ekki má gleyma merkingu myndarinnar fyrir kvikmyndastjörnuna Tom Cruise – ómerkingur með sólgleraugu á mótorhjóli varð að íkoni og lagði grunninn að frægðarferli leikarans.

Úr „cockpittinu“ drýpur elixír guðanna

Söguhetja Top Gun: Maverick hefur ekkert breyst frá því tónar the Righteous Brothers heyrðust undir lok síðustu myndar. Í gegnum myndina segir nærkominn samstarfsfélagi sömu hendingu við kappann „mér líkar ekki við þennan svip“ sem Maverick svarar „þetta er sá eini sem ég hef“. Líkt og persóna Maverick, hefur ásýnd Tom Cruise lítið breyst – og hvort sem hann sýpur af elíxir guðanna eða hvílir í frystikistu á nóttinni þá er nokkuð víst að það hefur borið tilætlaðan árangur. Maverick hefur þrátt fyrir ofurgáfur sem flugmaður og forystuhæfileika haldið stöðu sinni sem kapteinn innan hersins, á meðan aðrir klifu metorðastigann. Hann lifir til þess að fljúga og kanna ystu mörk hins mögulega. Þegar komið er sögu er kappinn kominn upp á kant við yfirvaldið, sem þolir ekki sérlyndi og framtakssemi kapteinsins, og í hættu með að verða risaeðla í síbreytilegum heimi. Útdauð tegund, eins og bíóstjörnur samtímans samanber Tom Cruise, eða hvað?

Eftir vinsældir Top Gun hefur farið Cruise sínar leiðir, vann ýmist með höfundaleikstjórum (Stanley Kubrick, Steven Spielberg, Martin Scorsese, Neil Jordan, P.T. Anderson o.s.frv.) eða í hasarmyndum. Undantekningarlaust var hann í aðalhlutverki, tók áhættu í verkefnavali og oftast nær urðu myndirnar vinsælar. Frá aldamótum varð hann umdeildari út af hlutdeild sinni í starfi Vísindakirkjunnar og furðulegs háttalags í tengslum við einkalífið. Á sama tíma einbeitti hann sér að hlutverkum í vísindaskáldskap og hasarmyndum og hafa Mission: Impossible myndirnar orðið sex talsins, en fram að Top Gun: Maverick eru það einu framhaldsmyndirnar sem hann hefur tekið þátt í – en sá myndabálkur hverfist aðallega um stjörnuímynd hans. Frægur er hann fyrir að framkvæma öll áhættuatriði sjálfur, á ystu nöf og eins og Maverick, og eilítið sér á báti, líkt og fræg hljóðupptaka þar sem hann jós úr reiðiskálum yfir samstarfsfólki sínu vegna brota á covid-öryggisreglum við tökur á væntanlegri Mission: Impossible ræmu, bar vitni um.

Nostalgía í fagurfræði og efni

Annað megineinkenni Top Gun: Maverick er nostalgísk ára og þrá eftir menningarafurðum liðinnar tíðar sem birtist í endursköpun þeirra. Forskriftin er Star Wars: The Force Awakens (J.J. Abrams, 2015), fyrsti kapítuli nýja Stjörnustríðsbálksins eftir yfirtöku Disney-samsteypunnar (þess „sjöunda“ í heildarsamhenginu), að því leyti að ákveðnar frumhetjur (hér Cruise sem söguhetjan Maverick en Val Kilmer bregður einnig stuttlega fyrir sem Iceman) mæta nýjum ungum persónum, sem eru byggðar mislauslega á persónum frumgerðarinnar, í frásögn sem líkir eftir forveranum án þess að vera nákvæmlega eins. Líkt og í Force Awakens er nostalgían jafnframt innlimuð í fagurfræði verksins, hvergi skýrara en í hægfara upphafstitlaatriði sem kallast á við samsvarandi senu frumgerðarinnar í klippingu og byggingu skota. Þar má sjá herflugvélar hefja sig til lofts og lenda á flugbraut í appelsínugulu sólarlagi og undir slær kunnuglegur trommuheili í takt við bjölluhljóm og á meðan óma skærar gítarhetjulykkjur, en þessu farið á sama hátt í nýju myndinni og þeirri gömlu. Skyldleiki Top Gun: Maverick við Stjörnustríðin nær þó enn lengra en aðalverkefni flugskólasveitarinnar, sem Maverick er fenginn til að leiða, er afar keimlík þeysireið Loga geimgengils úr upphaflegu Stjörnustríðsmyndinni (1978, George Lucas) þegar Dauðastjarna illveldisins er sprengd upp í ótrúlegri þeysireið.

Ég hugsa hugsa hugsa hugsa hugsa allt of mikið

Eins og við má búast er osturinn ekki beinlínis fínt skorinn. Top Gun: Maverick reiðir sig á matreiðslu þess kunnlega með lítils háttar uppfærslum og tilbrigðum. Annmarkar handritsins eru þó nokkrir - Jennifer Connelly túlkar nú ástarviðfang Mavericks sem hefur þann megintilgang að fleyta fram sögu hetjunnar, hlusta á raunir hans og sitja fallega aftan á mótorhjólinu, en leikkonan glæðir þennan auma efnivið vel lífi. Frábær flugatriði í háloftum og óvænt vending í lokakafla ásamt vel heppnaðri notkun á stjörnuímynd gera Top Gun: Maverick þó að skemmtilegri bíóupplifun, þrátt fyrir vafasama hugmyndafræði verksins. En eins og Maverick tönglast á, þá borgar sig að hugsa ekki á sumum stundum.