Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Við erum að snúa til baka“

Mynd: RÚV / RÚV
Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði, segir algjöra pattstöðu í bandarísku stjórnkerfi helstu ástæðu þess að réttindamál einstaklinga fá ekki eðlilega afgreiðslu á vettvangi stjórnmálanna.  

Baldur og Dilja Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ræddu viðsnúning Hæstaréttar Bandaríkjanna í máli Roe gegn Wade í Vikulokunum í morgun. 

„Það sem ég held að sé að gerast, ef við skoðum þetta í sögulegu samhengi, er að síðustu hálfu öldina, síðustu 50 árin, hafa Bandaríkin þróast í frjálsræðisátt. Aukið réttindi einstaklinga og aukið frelsi einstaklinga,“ segir Baldur.

Réttindi kvenna og minnihlutahópa, fólks af afrísku bergi brotnu eða frá rómónsku Mið-Ameríku sem og samkynhneigðra hafi verið víkkuð út á tímabilinu. Þessir hópar hafi fengið aukin réttindi og allt hafi verið að færast í frjálsræðisátt. 

Tímamót með forsetatíð Trump

„Núna erum við komin að ákveðnum tímamótum og vitum ekki alveg hvert næstu 50 ár muni leiða okkur. Það verða ákveðin tímamót með kjöri Trump. Þá ná þessi íhaldsöfl yfirhöndinni og þau fara að reyna að snúa þessari þróun við.“ 

Baldur segir að þetta byggi á gömlum íhaldssömum hugmyndum um hvernig fjölskyldan eigi að vera, um hlutverk konunnar og hlutverk karlmannsins sem byggist allt á einskonar tvíhyggju.

„Nú á sér stað í Bandaríkjunum gríðarleg barátta um hvort það eigi að halda áfram í frjálsræðisátt eða snúa til baka. Og í augnablikinu erum við að snúa til baka,“ segir Baldur.

Slagur við fremstu lýðræðisríki

Dilja segir fréttirnar af úrskurðinum ömurlegar. „Og það er svo sorglegt að hugsa til þess, að þessi réttindi, sjálfsákvörðunarréttur kvenna og réttur kvenna til að ráða yfir eigin líkama, sem að við auðvitað tökum orðið sem sjálfsögðum og við tölum fyrir allstaðar þar sem við erum í alþjóðlegri samvinnu, til dæmis í þróunarsamvinnu.“ 

Nú komi til þess að „taka þennan slag og vera að berjast fyrir þessum réttindum í fremstu mannréttinda- og lýðræðisríkjum heims eins og í Bandaríkjunum. Og við erum jafnvel að sjá þennan slag vera tekinn í nágrannaríkjum okkar í Evrópu,“ segir Diljá Mist.

Réttindi koma og fara í gegnum dómskerfið

Baldur segir pattstöðuna í bandarísku stjórnkerfi eina helstu ástæðu þess að réttindamál einstaklinga fái ekki eðlilega afgreiðslu. Réttindin komi og fari í gegnum dómskerfið, en ekki hefðbundna leið í gegnum lýðræðislegt ferli.

„Bandarísk stjórnmál hafa verið ófær um að taka afstöðu í þessum mikilvægu málum sem varða einstaklingsfrelsi eins og þungunarrofsrétt kvenna og að þær ráði yfir sínum eigin líkama. Varðandi aukin réttindi samkynhneigðra og jafnvel aukin réttindi blökkumanna. Og þessi réttindi eru að koma í gegnum dómskerfið. Það er ekki alveg rétta leiðin,“ segir Baldur Þórhallsson.

Í spilaranum hér að ofan má hlusta á viðtal Sigríðar Daggar Auðunsdóttur við Baldur og Diljá Mist í Vikulokunum.