Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Um tvö hundruð manns gistu á Hömrum þrátt fyrir kulda

25.06.2022 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
Kuldatíð hefur ríkt á Norðurlandi undanfarna daga og ekki mun hlýna fyrr en á mánudag. Þrátt fyrir það gistu um tvö hundruð manns á tjaldsvæði við Kjarnaskóg á Akureyri í nótt.

Það var aðeins tæplega fimm stiga hiti frá klukkan tvö til fimm í nótt á Akureyri. Hitinn hækkaði svo lítillega í morgunsárið og veðurspá Veðurstofu Íslands gerir ráð fyrir að hitinn verði mest sex gráður í dag. Reiknað er með svipuðu hitastigi alla helgina á Akureyri en svo tekur að hlýna á mánudag.

Þrátt fyrir kuldann var nokkur mannfjöldi sem gisti á tjaldsvæðinu Hömrum við Kjarnaskóg á Akureyri í nótt. Ásgeir Hreiðarsson, framkvæmdastjóri Hamra, segir um tvö hundruð manns hafa gist á tjaldsvæðinu í nótt. „Miðað við árstíma er þetta heldur færra en stundum hefur verið. En það hafa líka verið færri.“ 

Hann segir aðsóknina svipaða nú og á sama tíma í fyrra, enda hafi júnímánuður einnig verið nokkuð kaldur á Norðurlandi þá. Gestir tjaldsvæðisins báru sig þó flestir vel þrátt fyrir veðrið. „Já, já ég hef ekki heyrt neitt annað en að það gangi vel. Þetta er svo sem enginn fimbulkuldi. Við búum á Íslandi,“ segir Ásgeir.

Sveinn Ólafur Melsted