Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þegar búið að banna þungunarrof í sjö ríkjum

epa10034091 A demonstrator holds a poster reading 'Ban guns not abortion' during an abortion rights protest following the decision by the US Supreme Court to overturn the Roe v. Wade ruling, in front of the City Hall in Los Angeles, California, USA, 25 June 2022. The Supreme Court decision opens the possibility for states to ban abortion.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Að minnsta kosti sjö ríki Bandaríkjanna hafa ýmist þegar innleitt eða lagt drög að því að innleiða mun strangari skilyrði fyrir þungunarrofi en nú gilda, eftir að hæstiréttur þar í landi ógilti nær hálfrar aldar gamlan úrskurð dómstólsins sem tryggði rétt kvenna til þungunarrofs.

Mótmælt við heimili dómara

Mótmælendur söfnuðust saman við heimili Clarence Thomas, eins af níu dómurum við Hæstarétt Bandaríkjanna og einn þeirra sex sem skiluðu meirihlutaáliti í gær um að réttur kvenna til þungunarrofs væri ekki stjórnarskrárvarinn. Þar með sneri rétturinn við næstum fimmtíu ára gömlum úrskurði sem tryggt hefur bandarískum konum þennan rétt. Tugir þúsunda mótmæltu þessum gjörningi hæstaréttar í fjölda bandarískra borga. 

Strax búið að banna þungunarrof í sjö ríkjum

Áhrifin af úrskurði Hæstaréttar í gær komu strax í ljós. í sjö ríkjum Bandaríkjanna, meðal annars í Kentucky, Louisiana og Alabama, höfðu áður verið sett lög um strangari reglur eða bann - lög sem tóku gildi um leið og Hæstiréttur birti sinn úrskurð.

Í öðrum ríkjum, Mississippi til dæmis, taka nýjar reglur gildi þegar dómsmálaráðherrar þeirra ríkja staðfesta þær, og í Texas, Idaho og Tennessee verður gefinn þrjátíu daga frestur. Heilt yfir má segja að um helmingur ríkja Bandaríkjanna hafi þegar, eða ætli að setja bann eða strangari reglur, og nú þegar er búið að loka heilsugæslustöðvum, til dæmis í Louisiana og Arkansas, sem framkvæmdu þungunarrof.

Frjálslyndari ríki tryggja aukið og bætt aðgengi og öryggi

Í öðrum ríkjum, þar sem Demókratar eru við völd, hefur verið gripið til aðgerða til að tryggja konum þennan aðgang. Það á til dæmis við um New Jersey og Kaliforníu. Í Kaliforníu voru í gær innleidd lög sem ætlað er að tryggja að aðilar utan ríkisins geti ekki dregið Kaliforníubúa sem framkvæma, aðstoða við eða undirgangast þungunarrof fyrir rétt. Jafnframt er lögunum ætlað að vernda þær konur, sem koma til Kaliforníu frá öðrum ríkjum til að rjúfa þungun.