Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mannskæð skotárás í miðborg Oslóar í nótt

25.06.2022 - 01:09
Skotárás var gerð í vinsælli göngugötu í miðborg Oslóar aðfaranótt 25. júní 2022. Minnst tvær manneskjur dóu í árásinni og á annan tug særðust, þar af þrjú alvarlega. Svo virðist sem árásin hafi fyrst og fremst beinst að gestum skemmtistaðarins London Pub, sem er vinsæll samkomustaður hinsegin fólks í borginni.
 Mynd: OLAV RØNNEBERG - NRK
Minnst tvær manneskjur létust og nær tuttugu særðust í skotárás á fjölfarinni göngugötu í miðborg Oslóar í nótt. Lögregla hefur handtekið einn mann vegna árásarinnar og segir ekkert benda til þess að fleiri hafi verið að verki. Í frétt norska ríkisútvarpsins NRK segir að skotum hafi verið hleypt af við skemmtistaðinn London Pub í miðborginni í nótt og jafnvel fleiri stöðum, en London Pub er vinsæll samkomustaður hinsegin fólks.

Í færslu lögreglu á Twitter segir að minnst tveir einstaklingar liggi í valnum og margir hafi særst. Tore Barstad, talsmaður Oslóarlögreglunnar, sagði tíu manns njóta aðhlynningar heilbrigðisstarfsfólks, þar af væru þrjú alvarlega særð.

Gestir London Pub virðast hafa verið skotmarkið

Samkvæmt uppfærðri frétt NRK særðust minnst nítján í árásinni og voru ýmist flutt á sjúkrahús eða læknavaktina.

Á vef NRK kom líka fram að um tíma hafi verið talið, að skotið hafi verið frá allt að þremur stöðum í götunni. NRK hefur þó eftir fjölda vitna að  að árásin hafi fyrst og fremst beinst að næturklúbbnum London Pub. Þar var fjöldi fólks saman kominn í aðdraganda gleðigöngunnar Oslo Pride, sem gengin verður á morgun.

Á meðal vitna var Olav Rønneberg, sakamálafréttamaður NRK. Hann lýsir því að hann hafi verið á leið inn á næturklúbb þegar hann sneri sér við og sá mann leggja svartan sekk á götuna og draga fram skotvopn. „Ég hélt fyrst að þetta væri loftbyssa. Svo brotnaði gler á næturklúbbnum við hliðina og ég áttaði mig á að ég yrði að koma mér í skjól,“ segir Rønneberg.

Hann segir að starfsfólk næturklúbbsins hafi smalað gestum inn í skyndi og læst dyrunum, og lögregla mætt á vettvang skömmu síðar.

Einn maður handtekinn og tvö skotvopn fundin

Einn maður var handtekinn skammt frá London Pub á öðrum tímanum í nótt að norskum tíma, grunaður um verknaðinn. Í blábyrjun vann lögregla út frá þeirri vinnutilgátu að mögulega hafi fleiri en einn maður átt hlut að árásinni en rúmlega hálf fjögur í nótt að staðartíma sagði lögreglutalsmaðurinn Barstad allt benda til þess skotmaðurinn hafi verið einn að verki.

Tvö skotvopn hafa fundist, en árásin er ekki skilgreind sem hryðjuverk, að sögn Barstad.  Lögregla hefur ekki rætt um hana sem hatursglæp heldur, enn sem komið er. Hins vegar hefur lögregla hafið húsrannsókn á nokkrum stöðum í Osló, segir í frétt NRK, þar á meðal í íbúð hins grunaða. Einnig hefur yfirstjórn lögreglunnar boðað til neyðarfundar til að meta hvort skotárásin í nótt breyti einhverju um skipulag gleðigöngunnar á morgun, laugardag. 

Fréttin var síðast uppfærð kl. 02.55

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV