Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Árás á kærleikann og frelsið til að elska

25.06.2022 - 06:36
epa10033060 Police officers secure the scene after several shots were fired outside the London pub in the center of Oslo, Norway, 25 June 2022. Two people were killed and at least 10 were injured after a gunman fired shots outside the London pub, a gay bar and nightclub.  EPA-EFE/Javad Parsa  NORWAY OUT  
IMAGE PIXELLATED AT SOURCE
 Mynd: EPA-EFE - NTB
Jonas Gahr Støre, leiðtogi norska Verkamannaflokksins og forsætisráðherra Noregs, og Erna Solberg, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður norska Íhaldsflokksins, eru slegin vegna tíðinda af mannskæðri skotárás í miðborg Oslóar í nótt, þar sem tvennt lét lífið og hátt í tuttugu særðust, þar af þrjú alvarlega. Flest bendir til þess að árásarmaðurinn hafi vísvitandi ráðist að hinsegin fólki sem safnast hafði saman á næturklúbbi í aðdraganda gleðigöngunnar sem á að fara fram í Osló í dag.

Støre segir illvirkið hafa verið grimmilega og skelfilega árás á saklaust fólk. Hann segir ekki vitað með vissu hvað að baki bjó en fullvissar hinsegin fólk, sem nú óttist um öryggi sitt, að norska þjóðin standi með því.

Árás á kærleikann

Erna Solberg segir ódæðisverkið vera árás á kærleikann, árás á frelsið til að elska hvern sem fólk kýs að elska. Hún segist ákveðin í að mæta í gleðigönguna í dag til að sýna þeim stuðning sem enn standa í baráttunni fyrir því að fá að vera þau sjálf.

„Við vitum ekki enn hvað liggur að baki árásinni í nótt, en Noregi á að vera óhætt að elska hvern sem er og enginn skal komast upp með að hræða okkur frá því að vera opið og hlýlegt samfélag þar sem allir eru velkomnir,“ segir Solberg.

Einn maður hefur verið handtekinn vegna árásarinnar. Telur lögregla nokkuð víst að að hann hafi verið að verki og ekki átt sér vitorðsmenn, þótt ekkert hafi verið útilokað í þeim efnum enn. Samkvæmt frétt NRK hefur hinn grunaði ekki sýnt lögreglu neinn samstarfsvilja. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV