Danska blaðið Weekendavisen komst yfir hluta af drögunum og birti í gærkvöld. Meginniðurstaða skýrslunnar er staðfesting á því að stjórnvöldum hafi verið óheimilt að fyrirskipa slátrun allra minka í landinu, samkvæmt gildandi lögum þegar Mette Frederiksen greindi frá ákvörðun stjórnarinnar hinn 4. nóvember 2020.
Hún tilkynnti að allir minkar skyldu aflífaðir, þar sem nýtt afbrigði kórónuveirunnar hefði greinst í þeim, sem mögulega væri ónæmt fyrir komandi bóluefnum.
Ólögleg aðgerð og ráðherra látinn fjúka
Nokkrum dögum síðar viðurkenndi ríkisstjórnin að hún hefði ekki haft lagaheimild til að grípa til þessara róttæku aðgerða, en þá hafði um þremur milljónum minka þegar verið slátrað. Mogens Jensen, matvælaráðherra, var látinn taka pokann sinn skömmu síðar.
Forsætisráðuneytið villti um fyrir bændum og almenningi
Í frétt Danmarks Radio segir að forsætisráðherrann Frederiksen og ráðuneytisstjóri hennar hafi aldrei hvikað frá því, þegar þær mættu fyrir rannsóknarnefndina, að matvælaráðuneytið eitt bæri ábyrgð í þessu máli.
Rannsóknarnefndin gagnrýnir forsætisráðuneytið engu að síður harðlega, samkvæmt þeim gögnum sem Weekendavisen komst yfir. Þar segir að forsætisráðuneytið hafi gegnt leiðandi hlutverki í ferlinu öllu og villt um fyrir minkaræktendum þegar forsætisráðherrann sjálf kom fram í sjónvarpi og sagði að skera þyrfti bústofn þeirra.
„Þegar á allt er litið er það mat nefndarinnar, að forsætisráðuneytið hafi gengið fram með mjög ámælisverðum hætti í ferlinu, sem leiddi til þess að gróflega var villt um fyrir minkabændum og almenningi, og til hinna klárlega ólögmætu fyrirmæla til yfirvalda á fréttafundinum 4. nóvember 2020,“ segir í drögunum, samkvæmt frétt Weekendavisen. Ákvörðunin sjálf mun hafa verið kynnt og samþykkt á samráðsfundi ríkisstjórnarinnar daginn áður.
Samkvæmt DR gagnrýnir rannsóknarnefndin ekki einstaka ráðherra eða persónur, heldur stjórnsýslustofnanir og ráðuneyti, þar sem matvælaráðuneytið fær verstu útreiðina.