Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Til hvers í ósköpunum „smassar“ maður hamborgara?

24.06.2022 - 11:35
Mynd: Kastljós / skjáskot
Veitingastöðum sem bjóða upp á hamborgara sem hafa verið kramdir með verklegum spaða á sjóðandi heita pönnu fjölgar nú ört á Íslandi. Þessi rúmlega hálfrar aldar gamla aðferð kallast að „smassa“ og það er ekki langt síðan smassaðir hamborgarar urðu útbreiddir á Íslandi.

Í örskýringu í Kastljósi í gær fengum við að vita hvernig aðferðin varð til, hvernig maður fer að því að „smassa“ hamborgara og hverju það breytir fyrir bragð og áferð.

Horfðu á örskýringuna í spilaranum hér fyrir ofan.

Áður en hamborgari er smassaður á pönnu er hrátt nautakjötið mótað í hálfgerða kúlu. Þegar kjötið og hitinn mætast verða efnahvörf sem eru nefnd í höfuðið á franska efnafræðingnum Louis Camille Maillard.

Í stuttu máli þá eiga Maillard-efnahvörfin sér stað þegar prótín og sykur í og á matnum umbreytast með hita. Þannig verður til nýtt bragð, lykt og litur. Þetta gerist við ýmsa eldun, til dæmis þegar þú ristar brauð og steikir kjöt. Til að skilja Maillard-efnahvörfin betur er ágætt að ímynda sér bragð og áferð kjöts sem hefur verið soðið, samanborið við kjöt sem er steikt á pönnu.

Horfðu á örskýringuna hér fyrir ofan til að fræðast enn betur um þessa hávísindalegu aðferð.