
Íhaldsflokkurinn tapaði illa í tvennum aukakosningum
Áfall í Devon
Frjálslyndir Demókratar sigruðu í öðru kjördæminu, Tiverton og Honiton í Devonskíri, þar sem Íhaldsflokkurinn hafði farið með sigur af hólmi í öllum kosningum í rúmlega öld.
Í hinu kjördæminu, Wakefield í Englandi Norðanverðu, endurheimti Verkamannaflokkurinn þingsæti sem hann missti til Íhaldsflokksins 2019.
Í frétt The Guardian segir að viðbúið hafi verið að Íhaldsflokkurinn tapaði Wakefield, sem hefur verið traust vígi Verkamannaflokksins frá 1932. Áfallið sé hins vegar mun meira í Tiverton og Honiton, þar sem fylgið sveiflaðist feikilega.
Í kosningunum 2019 hlaut frambjóðandi Íhaldsflokksins rúmlega 24.000 fleiri atkvæði en næsti maður, en nú tapaði frambjóðandi flokksins með rúmlega 6.000 atkvæða mun.
Kynferðisbrot og klámhorf í þingsal kostaði þingsæti
Boðað var til aukakosninganna þegar Imran Ahmad Kahn sagði af sér þingmennsku í Wakefield eftir að hann var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn táningspilti, og Neil Parish sagði af sér í Tiverton og Honiton eftir að hann var staðinn að því að horfa á klám í síma sínum þar sem hann sat í þingsalnum.
Enn hitnar undir Johnson
Tapið í aukakosningunum, sérstaklega í Tiverton og Honiton, er vatn á myllu andstæðinga Borisar Johnson innan Íhaldsflokksins. Forsætisráðherrann stóð nýverið af sér vantrauststillögu í þingflokknum, þar sem 148 Íhaldsþingmenn lýstu vantrausti á hann en 211 studdu hann til áframhaldandi setu.
Í frétt The Guardian segir að samkvæmt reglum flokksins sé ekki hægt að leggja fram aðra vantrauststillögu á Johnson fyrr en að ári liðnu, en að þeim reglum sé hægt að breyta.