Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Hingað til höfum við staðist þessa freistingu“

Mynd: RÚV / RÚV

„Hingað til höfum við staðist þessa freistingu“

24.06.2022 - 17:02

Höfundar

„Við erum ekki par, en við erum að fara að byrja saman,“ segir útvarpsmaðurinn Siggi Gunnars um vin sinn Friðrik Ómar, söngvara. Þeir verða saman með útvarpsþáttinn Félagsheimilið í sumar. Fólki hættir til að gera ráð fyrir að hinsegin menn eigi í ástarsambandi þegar einungis vinskapur býr þar að baki.

Gleðigjafarnir Siggi Gunnars, eða Sigurður Þorri Gunnarsson útvarpsmaður, og Friðrik Ómar Hjörleifsson tónlistarmaður ætla að skemmta landsmönnum á föstudögum út sumarið í nýja útvarpsþættinum Félagsheimilið á Rás 2.  

Þeir félagar ræddu við Guðrúnu Dís Emilsdóttur og Hrafnhildi Halldórsdóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 um þáttinn og hugmyndina á bak við nafn hans.  

„Við erum ekki par“ 

Nú eru þeir Siggi og Friðrik byrjaðir saman en þó ekki á rómantískan hátt heldur í samstarfi. „Það vill þannig til að fólk heldur stundum að tveir hinsegin menn geti ekki verið vinir án þess að sofa saman,“ segir Friðrik en það sé algengur misskilningur. „En það er ekki, hingað til höfum við staðist þessa freistingu,“ bætir Siggi við og hlær.  

„Þetta hefur verið erfitt. Ég hef til dæmis unnið mikið með Jógvani en hann er giftur og með tvö börn,“ segir Friðrik. „En engu að síður eru margir sem halda að við séum par.“ 

„Við erum ekki par, en við erum að fara að byrja saman,“ segir Siggi. „Með nýjan útvarpsþátt.“  

Bjóða til veislu 

Þátturinn mun heita Félagsheimilið og vísar þannig í allt fjörið sem þar átti sér stað á árum áður. „Manstu í gamla daga, það gerðist náttúrulega allt í félagsheimilunum. Það liggur við að pósthúsið hafi verið þarna,“ segir Friðrik.  

„Það verða haldnir kvenfélagsfundir og pálínuboð og kaffihlaðborð. Það verður ýmislegt um að vera í þessu félagsheimili líkt og öllum félagsheimilum,“ segir Siggi.  

Báðir miklar landsbyggðartúttur 

Friðrik segir að ekki verði of mikið um gestagang vegna þess að þeim finnist svo gaman að tala saman bara tveir. „Við ætlum að einbeita okkur svolítið að því, allavega í upphafi. En við fáum til okkar góða gesti og þetta verður svona góð áminning um hvað þessi hús hafa verið mikilvæg fyrir landið okkar,“ segir hann. „Þau einhvern veginn standast tímans tönn,“ og þess vegna hafi nafnið verið tilvalið. „ Og við erum húsverðir, sjálfskipaðir.“ 

„En svo líka náttúrulega má segja á Rás 2 og Ríkisútvarpið sé félagsheimili allra landsmanna,“ segir Siggi.  

„Við erum báðir gríðarlegar landsbyggðartúttur,“ segir Friðrik. „Þetta verður svona til sjávar og sveitarfílingur. Við erum sveitamenn líka og þetta verður svolítið hallærislegt. Ég get lofað ykkur því,“ segir hann.  

Félagsheimilið verður á dagskrá alla föstudaga kl.12:42 þar sem þeir ætla að láta gamminn geisa, fara yfir málefni líðandi stundar, fara í tímaflakk og spila góða tónlist. Einnig verður fastur liður þar sem þeir spyrja þekkta einstaklinga 22 spurningar sem enginn vill svara. 

Rætt var við Friðrik Ómar Hjörleifsson og Sigurð Þorra Gunnarsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.