Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ekkert annað en skrumskæling á réttarríkinu”

24.06.2022 - 13:22
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, segir það skrumskælingu á réttarríkinu að viðurkenna brot gegn kærendum í fjórtán málum sem hafa verið til meðferðar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu, vegna skipunar dómara við Landsrétt.

„Það er kannski tvennt sem mér finnst blasa við í þessu máli. Annars vegar að Hæstiréttur er augljóslega ekki æðsti dómstóll landsins, heldur hefur dómsvaldið verið flutt úr landi. Hins vegar að með þessum samningum að þá finnst mér blasa við að hér er verið að skrumskæla réttarríkið,” segir Sigríður.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að íslenska ríkið hafi viðurkennt brot sín, en þau tengjast öll dómum Landsréttar sem kveðnir voru upp af dómurum sem Mannréttindadómstóllinn úrskurðaði að hefðu verið ólöglega skipaðir. Með því lýsir ríkið því yfir að kærendur í hverju máli eigi þann kost að krefjast endurupptöku máls síns fyrir íslenskum dómstólum. 

„Að mati MDE í Strasbourg virðist vera að hinir íslensku lögfræðingar kunni ekki nógu mikið í þessari mannréttinda-frönsku sem sagt er að höfð sé í hávegum í Strasbourg. En nú liggur fyrir að ríkisstjórn VG hefur samið við sakfellda menn, meðal annars ofbeldismenn, um bætur vegna dómsmála þar sem einhverjir þeirra meira að segja játuðu skýlaust brot sín. Og það virðist vera sem það sé nánast verið að skipa íslenska endurupptökudómstólnum að komast að þeirri niðurstöðu um að um glæpi þessara manna eigi að fjalla aftur um, kjósi þeir það,” segir Sigríður.

Hæstiréttur dæmdi á sínum tíma að Sigríður hefði brotið gegn stjórnsýslulögum þegar hún vék frá tillögu dómnefndar um hvaða umsækjendur væru hæfastir. Að auki dæmdi Hæstiréttur íslenska ríkið skaðabótaskylt gagnvart tveimur umsækjendum sem voru metnir meðal fimmtán hæfustu en Sigríður færði niður. Aðspurð segist hún ekki telja ábyrgðina liggja hjá sér. 

„Hún liggur þá líka hjá Alþingi Íslendinga og jafnvel forseta ísland þó hann sé auðvitað ábyrgðarlaus. Ég skipaði þessa landsréttardómara eftir umfjöllun Alþingis, það var Alþingi sem samþykkti þessa skipun,” segir hún.

„Ábyrgðin á þessu máli öllu liggur auðvitað í Strasbourg en kannski fyrst og fremst upphaflega hjá þessari hæfnisnefnd dómara sem fjallaði hér um umsækjendur um embætti landsréttardómara með afar ósanngjörnum hætti.”

Fréttastofa hefur ekki náð tali af Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra vegna málsins.