Telur vexti hafa verið lækkaða of skarpt í faraldrinum

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Seðlabankinn fór of skarpt í vaxtalækkanir til að bregðast við faraldrinum og átti þannig þátt í því að fasteignamarkaðurinn fór að nokkru leyti úr böndunum. Það má sjá núna, að dómi Jóns Þórs Sturlusonar forseta Viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík, en auðvitað hafi aðstæður verið fordæmalausar á sínum tíma.

Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti sjö sinnum á þrettán mánuðum, síððast um eitt prósentustig í 4,75%. Skilja má af yfirlýsingu peningastefnunefndar bankans að þeir geti hækkað enn og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri var afdráttarlaus þegar rætt var við hann. 

Við förum eins hátt og við þurfum.

Verðbólga mældist 7,6% í maí en verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5% verðbólga yfir 12 mánaða tímabil. 

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, vitnaði til þess í sama fréttatíma að fyrir lífskjarasamninginn voru stýrivextir 4,25%, lækkuðu í 0,75% og eru nú 4,75%.

Þannig að sú fórn sem við lögðum fram í síðustu samningum er öll farin og meira til.

 Jón Þór segir að frekar megi búast við að vextir verði hækkaðir aftur. Forsendur efnahagsþróunar séu þó óljósari nú en til dæmis þegar Peningamál voru gefin út í mars. Þensla á innlendum markaði er meiri en búist var við í upphafi árs en horfur erlendis hafa versnað. Þó sé alveg skýrt að Seðlabankinn beiti þeim tækjum sem hann hefur til að halda aftur af verðbólgunni.

Segir að Seðlabankinn sé ekki samningsaðili

Forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar hafa talað um að í komandi kjarasamningum verði horft til efnahagsástandsins og kjararýrnunar. Það sé ekki bara verkaýðs og launafólks að taka á sig byrðar; sú plata sé orðin þreytt. Jón Þór segir mikilvægt að hafa í huga að Seðlabanki Íslands sé ekki samningsaðili. Hlutverk bankans sé vel skilgreint í lögum og best færi á að Seðlabankinn einbeitti sér að því og gerði öllum sem semja um kaup og kjör og hafa áhrif á verðlag skýra grein fyrir því hvernig hann myndi bregðast við ef hér verður áfram þensla. Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar verði líka að átta sig á því hver viðbrögðin verða ef mjög langt verður gengið í kjarasamningum í haust. 

 Vaxtalækkun í faraldrinum of skörp þegar horft er til baka

 Jón Þór segir að eftir á að hyggja sé augljóst að Seðlabankinn hafi farið of skarpt í vaxtalækkanir til að bregðast við kórónuveirufaraldrinum og eigi þátt í því að fasteignamarkaðurinn fór úr böndunum. En það hafi enginn getað séð fyrir í áður óþekktum kringumstæðum. Í raun sé það þannig að efnahagshorfurnar hafi verið betri en menn væntu í nokkuð langan tíma. Viðsnúningur í ferðaþjónustu hafi orðið talsvert hraður og hækkandi matvælaverð um allan heim hafi jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf. 

Fasteignamarkaðurinn hægfara

Það tekur tíma að koma jafnvægi á framboð og eftirspurn á fasteignamarkaði, hann stillist ekki í einu vetfangi en aðgerðir Seðlabankans;  lækkun á veðsetningarhlutfalli fyrstu kaupenda, ákvæði um greiðslubyrði og vaxtahækkanir munu draga úr eftirspurninni að mati Jóns Þórs. Á næsta ári verði hækkanir á fasteignaverði hóflegri að dómi flestra greinenda en enginn spái lækkun svo hann viti til.  Nú ríkir hér þensluástand og ekki sér fyrir endann á því.

Viðtal við Jón Þór Sturluson má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.