Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Norðmenn hækka stýrivexti

23.06.2022 - 09:47
epa08741382 A general exterior view of the Norwegian Parliament in Oslo, Norway, 13 October 2020. According to reports, the Norwegian Government believE that Russia is behind a recent cyber attack on the Norwegian Parliament. Russia was behind a cyber attack launched against the Norwegian parliament in August, Norwegian foreign minister Ine Eriksen Soereide said on 13 October.  EPA-EFE/E. BORGEN  NORWAY OUT
 Mynd: EPA-EFE - NTB
Norski seðlabankinn hækkaði stýrivexti í morgun um hálft prósentustig, sem er tvöfalt meiri hækkun en greinendur áttu von á. Stýrivextir standa nú í 1,25 prósentum í landinu og hækkuðu síðast um 0,25 prósentustig.

Ida Wolden Bache seðlabankastjóri sagði í tilkynningu að möguleikinn á löngu verðbólguskeiði auki þörfina á meiri hækkunum en áður var gert ráð fyrir. Með þessari hækkun sé dregið úr hættunni á því að verðbólga haldist mikil.

Þá býst seðlabankastjóri við að hækka stýrivexti í 1,5 prósent í ágúst. Bankinn býst við því að vextirnir verði komnir í þrjú prósent næsta sumar en hafði áður gert ráð fyrir 2,5 prósenta stýrivöxtum í árslok 2023. 

Verðbólga mældist 5,7 prósent í noregi í maí og vegur hækkandi orkuverð þar einna þyngst. Að fráskildu orkuverði hækkaði verðlag um 3,4 prósent.

Sem kunnugt er hækkaði Seðlabanki Íslands stýrivexti um heilt prósentustig í gær, og standa þeir nú í 4,75 prósentum hér.

Þórgnýr Einar Albertsson