Mögulegt að Rússar skrúfi fyrir gas til Evrópu í haust

epa08748017 Valves of the Nord Stream 2 pipeline landfall facility during a visit of Mecklenburg-Western Pomerania State Premier Manuela Schwesig (not in the picture) to the industrial port and the landfall facility of the joint German-Russian pipeline project Nord Stream 2, in Lubmin, Germany, 15 October 2020. The politically controversial pipeline project was put into question in response to the alleged poisoning of Kreml critic Alexei Navalny. Schwesig wants to save the gas pipeline that she regards an important infrastructure project.  EPA-EFE/CLEMENS BILAN
 Mynd: epa
Forstjóri Alþjóðaorkumálastofnunarinnar varar við að Rússar muni hugsanlega loka á allan gasútflutning til Evrópu í haust. Forstjórinn, Fatih Birol, segir í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC að algjör stöðvun á gasútflutningi sé ekki líklegasta niðurstaðan, en Evrópuríki verði að sýna fyrirhyggju og leggja á ráðin um möguleg viðbrögð ef jarðgasið hættir að streyma til þeirra frá Rússlandi.

Hafa þegar minnkað gasinnflutninginn um helming

Evrópuríki treysta mismikið á rússneskt gas en í heildina sóttu þau um 40 prósent af öllu jarðgasi til Rússlands fyrir innrás Rússa í Úkraínu. Á síðustu fjórum mánuðum hefur þeim tekist að helminga þetta og flytja nú um 20 prósent af gasinu inn frá Rússlandi.

Í frétt BBC kemur fram að nokkrum Evrópuríkjum hafi borist umtalsvert minna af rússnesku jarðgasi á síðustu vikum en reiknað var með. Talsmenn rússnesku gasfyrirtækjanna segja þetta ekki með vilja gert heldur stafa af tæknilegum vandamálum.

Rússar að styrkja stöðu sína

Birol telur þetta hins vegar með ráðum gert. Stopulli afhending nú torveldi Evrópuríkjum að fylla gasbirgðastöðvar sínar og styrkir samningsstöðu Rússa fyrir veturinn. „Ég myndi ekki útiloka að Rússar haldi áfram að tína til hin ýmsu og ólíku vandamál hér og þar og halda áfram að finna afsakanir fyrir því að draga enn úr gasflutningi til Evrópu og jafnvel skrúfa alveg fyrir hann,“ sagði forstjórinn í viðtali við BBC.