Fundað um aðildarumsóknir Úkraínu og Moldóvu í dag

epa08210652 European countries' flags and the European Union flag fly in front of the 'Louise Weiss Building', the seat of the European Parliament, in Strasbourg, France, 11 February 2020.  EPA-EFE/PATRICK SEEGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Leiðtogaráð Evrópusambandsins kemur saman til fundar í höfuðstöðvum sambandsins í Brussel í Belgíu í dag til að ræða umsóknir Úkraínu og Moldóvu um aðild að sambandinu. Fastlega er reiknað með að ríkin tvö fái formlega stöðu umsóknarríkis á fundinum.

Leiðtogar Frakklands, Þýskalands og Ítalíu heimsóttu Volodymyr Zelensky Úkraínuforseta í Kænugarði í síðustu viku og lýstu þá eindregnum stuðningi við að landið fengi stöðu umsóknarríkis án tafar.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar sambandsins gerði hið sama vikuna þar á undan og framkvæmdastjórnin hefur lagt formlegt álit sitt þar að lútandi fyrir leiðtogaráðið og mælt með því að umsókn Moldóvu fái sömu afgreiðslu.

Allt getur gerst á leiðtogafundum

Allt þykir því benda til þess að ráðið samþykki að veita löndunum tveimur stöðu umsóknarríkis í dag. David Boati, sérfræðingur sænska ríkissjónvarpsins SVT minnir þó á að allt geti gerst þegar leiðtogar sambandsins koma saman til fundar. Til dæmis sé óvíst hvort og þá hvaða skilyrði Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands kunni að setja fyrir samþykki sínu, en öll aðildarríki þurfa að samþykkja umsóknir sem þessar til að þær fái framgang.

Þá gæti gerst að Króatar og Slóvenar gerðu það að skilyrði að Bosnía og Hersegóvína fengi líka stöðu umsóknarríkis.

Zelensky í símamaraþoni

Zelensky hefur staðið í maraþonsímafundum við leiðtoga í Evrópusambandinu í aðdraganda fundarins og ræddi hann við hvorki fleiri né færri en ellefu þeirra í gær. Hann segist reikna með afgerandi og sögulegri ákvörðun leiðtoganna á fundinum í Brussel í dag.