Erfið reynsla fyrir þolendur að tilkynna kynferðisbrot

23.06.2022 - 21:51
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Þolendur kynferðisofbeldis eru ólíklegri en þolendur annarra brota til að tilkynna brotin til lögreglu.

Þetta kemur fram í nýrri grein Margrétar Valdimarsdóttur afbrotafræðings í tímaritinu Stjórnmálum og stjórnsýslu. Margrét rannsakaði ákvarðanir þolenda ofbeldis um að tilkynna brot til lögreglu. Auk þess sem þolendur kynferðisofbeldis eru ólíklegri til að tilkynna brotin hefur mat þeirra á alvarleika brots meiri áhrif á ákvörðun um tilkynningu. „Það er að segja, hversu alvarleg brotin eru talin vera að mati þolendanna sjálfra. Þolendur líkamsárása sem telja brotið ekki mjög alvarlegt tilkynna samt til lögreglu en nánast enginn þolandi kynferðisofbeldis sem telur brotið ekki hafa verið mjög alvarlegt tilkynnir til lögreglu.“

Margrét segir að hutfallslega fleiri þolendur kynferðisofbeldis tilkynni brotin en áður og telur það til marks um samfélagsbreytingar. Dregið hafi úr þolendaskömm í kynferðisbrotamálum, með aðgerðum á borð við Free the nipple og #metoo.

Margrét skoðaði einnig traust til lögreglu í tengslum við ákvarðanir þolenda ofbeldis um að tilkynna brot. Út frá þeim gögnum telur hún að megi leiða líkur að því að það geti verið erfið reynsla að tilkynna kynferðisofbeldi til lögreglu. „Rannsóknin gefi vísbendingar um það, að það að tilkynna kynbundið ofbeldi til lögreglu sé erfiðari reynsla fyrir þolendur heldur en að tilkynna líkamsárásir.“

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir