Bjargað af botni laugarinnar

Mynd: EPA-EFE / EPA

Bjargað af botni laugarinnar

23.06.2022 - 11:45
Bandarísk listsundkona, Anita Alvarez, sökk meðvitundarlaus til botns eftir að hafa lokið æfingum sínum í úrslitum á HM í Búdapest. Enginn virtist ætla að koma henni til bjargar svo þjálfarinn hennar stakk sér í laugina og synti með hana að bakkanum. Hér að ofan má sjá myndir sem teknar voru af björguninni en Alvarez er við góða heilsu.

Ekki er aðeins keppt í hefðbundnu sundi á heimsmeistaramótinu í Búdapest þessa dagana heldur ýmsum öðrum greinum, þar á meðal listsundi. Einn keppandi í þeirri grein, hin bandaríska Anita Alvarez, lenti í kröppum dansi í sundlauginni í gær þegar leið yfir hana og henni bjargað af botni laugarinnar.

Alvarez, sem er 25 ára, hafði nýlokið við æfingar sínar í úrslitum í einstaklingskeppni mótsins þegar hún sökk til botns. Þjálfari Alvarez, Andrea Fuentes, stakk sér til sund þegar hún sá í hvað stefndi, og dró íþróttakonuna upp á yfirborðið. Eftir það var hún borin á brott á börum og sagði bandaríska liðið hana við góða heilsu í tilkynningu í kjölfar atviksins.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bjarga þarf Alvarez úr lauginni en svipað atvik átti sér stað í Barcelona í undankeppni fyrir Ólypmíuleikana í fyrra. Eins og í gær var það Fuentes sem kom Alvarez til bjargar þá.

Kallaði til sundlaugarvarðanna

BBC hefur eftir Fuentes að Alvarez hafi gengist undir læknisskoðun eftir keppnina í gær og ekkert óeðlilegt hafi komið fram þar. „Við gleymum stundum að þetta gerist í öðrum þolgreinum eins og maraþoni, hjólreiðum og gönguskíðum. Við höfum öll séð myndir af fólki sem kemst ekki að endamarkinu og þurfa hjálp annarra til að komast þangað,“ sagði Fuentes. „Okkar íþrótt er ekki frábrugðin öðrum,“ bætti hún við og sagði ekki útilokað að Alvarez keppi aftur á mótinu.

Fuentes ræddi við spænska blaðið Marca um björgunina og sagðist hafa stokkið til vegna þess að „sundlaugarverðirnir voru ekki að því.“ Við spænska útvarpsrás sagði hún: „Mér leið eins og þetta hefði verið heill klukkutími. Ég sagði að ekki væri allt með felldu. Ég kallaði til sundlaugarvarðanna og bað þá að fara í laugina en þeir náðu ekki því sem ég sagði eða skildu mig ekki.“