80 þúsund meira í afborgun lána en fyrir ári

Mynd: RÚV / RÚV
Um næstu mánaðamót hækkar greiðslubyrði fyrstu íbúðarkaupenda af óverðtryggðum lánum að jafnaði um tuttugu þúsund krónur vegna stýrivaxtahækkunar Seðlabankans í gær. Mánaðarleg greiðsla af meðalláni, upp á þrjátíu og fimm milljónir króna, verður því tæplega áttatíu þúsund krónum hærri en fyrir ári.

Fyrstu kaupendur að íbúð taka að meðaltali lán hjá Landsbankanum fyrir 35,1 milljón króna. Fréttastofa fékk bankann til að reikna út hversu mikið mánaðarlegar greiðslur af þannig láni, óverðtryggðu með breytilegum vöxtum, hafa hækkað á einu ári. Vextirnir eru svipaðir hjá öllum þremur stóru viðskiptabönkunum. Gerum ráð fyrir að lánið sé til 40 ára, með jöfnum afborgunum og greitt sé af því mánaðarlega.

Í júní í fyrra greiddu þessir fyrstu kaupendur 73.126 króna afborgun inn á lánið og 100.914 í vexti. Heildargreiðslan var því 174.0041 króna. Þá voru vextirnir 3,45%. Vaxtagreiðslan hækkaði um 20.475 krónur í júní í fyrra miðað við mánuðinn á undan.

Í síðasta mánuði voru vextirnir 5,4% og því hækkaði vaxtagreiðslan og var orðin 157.953 krónur. Heildargreiðslan var 231.079. Greiðslan var því 57.039 krónum hærri en í júní í fyrra. 

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um eitt prósentustig í gær, líkt og fyrir mánuði. Gefum okkur að Landsbankinn hækki vextina um 0,7 prósentustig eins og síðast þannig að vextirnir verði 6,1 prósent. Þá verður vaxtagreiðslan í dæminu 178.428 krónur. Heildargreiðslan verður 251.555 krónur.

Þessir fyrstu kaupendur þurfa því væntanlega að greiða 77.514 krónum meira í sína mánaðarlegu greiðslu af láninu en fyrir ári síðan. En hvað gerir fólk sem ræður ekki við svo mikla hækkun á greiðslubyrði? 

„Það hefur þá valkosti að fara yfir í verðtryggt. Það svo sem alltaf sá valkostur sem hægt er að fara í þegar fólk vill lágmarka greiðslubyrðina. Ef fólk vill greiða sem minnst í upphafi þá fer það í verðtryggt en á móti kemur að þá er greiðslubyrðin þyngri seinna,“ segir Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum.

Mörgum finnst verðtryggð lán ókostur því fyrst um sinn fara allar greiðslur bara í að borga vexti og verðbætur en ekki inn á höfuðstól. Gústaf segir að fólk geti alltaf greitt inn á verðtryggðu lánin og stytt lánstímann. Það geti verið dýrt að taka nýtt lán og greiða upp eldra því þá þarf að greiða lántökukostnað og stundum uppgreiðslugjald.

Þá getur fólk fest vextina á óverðtryggðum lánum. Hjá viðskiptabönkunum þremur eru slíkir vextir í kringum sjö prósent. Viðbúið er að þeir verði brátt hækkaðir vegna stýrivaxtahækkunarinnar.