Skotmaðurinn handtekinn - skaut á tvo bíla

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚv
Íbúi í fjölbýlishúsi í Miðvangi í Hafnarfirði sem grunaður er um að hafa skotið á bíla á bílastæði er kominn út úr húsinu og hefur verið handtekinn. Þetta staðfestir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Hafnarfirði. Hann skaut á tvo bíla en ekki einn eins og áður hafði verið talað um.

Maðurinn kom út um tuttugu mínútur yfir tólf. Var þá handtekinn og færður niður á lögreglustöð.

Skúli sagði í hádegisfréttum RÚV að nú hefðist formleg rannsókn málsins og fljótlega yrði dregið úr lokunum á vettvangi. Hann sagði að á þriðja tug lögreglumanna hefðu komið að aðgerðinni.

Mynd: Ragnar Visage / RÚV

Eigandi annars bílsins sem skotið var á var einn þeirra sem tilkynnti um skotárásina. Skúli segir að rætt hafi verið við hann í morgun og honum boðin aðstoð, enda væri það erfitt að upplifa að skotið væri á sig með þessum hætti. Einnig sé búið að taka skýrslu af eiganda bílsins.

„Íbúar í þessu fjölbýlishúsi hafa ekki komist út frá því að þetta gerðist þannig að það er búinn að vera mikill viðbúnaður og vinna hjá viðbragðsaðilum en nú hefst náttúrulega rannsóknarvinnan, hvað eiginlega gekk á þarna,“ segir Skúli.

Nágrönnum sem líður illa vegna málsins er bent á að hringja í síma Rauða krossins 1717 og leita sér þar aðstoðar.

Fréttin var síðast uppfærð 13:03.