Of snemmt að taka ákvörðun til að tryggja strandveiðar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson
Enn er ekki tímabært að taka ákvörðun sem tryggir strandveiðar út tímabilið til 31. ágúst. Þetta kemur fram í svari matvælaráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu.

Strandveiðar stöðvist 20. júlí að óbreyttu

Miðað við veiðina til þessa, áætla sjómenn að strandveiðar stöðvist 20. júli að óbreyttu. Landssamband smábátaeigenda og fulltrúar svæðisfélaga hafa því farið fram á að matvælaráðherra tryggi strandveiðar til ágústloka með því að auka veiðiheimildir frá því sem nú er.

Stutt liðið á tímabilið og ekki tímabært að taka ákvörðun

Fréttastofa sendi matvælaráðuneytinu fyrirspurn og spurði meðal annars hvort ráðherra ætlaði að bregðast við og tryggja að hægt yrði að stunda strandveiðar til 31. ágúst. „Ekki er tímabært að taka ákvörðun um slíkt þar sem stutt er liðið á tímabilið, það er ekki hálfnað,“ segir meðal annars í svari ráðuneytisins.

Óvíst hvað fæst mikið af þorski á skiptimarkaði 

Þar er bent á að heimildir ráðherra til að bæta við strandveiðar séu uppurnar. Hinn svokallaði 5,3% pottur er fullnýttur, en strandveiðar tilheyra þeim hluta kvótakerfisins. „Fiskistofa á eftir að setja 6.952 tonn af makríl á skiptimarkað, verður væntanlega gert innan skamms. Hvort og hversu mikið fæst af þorski, í þeim skiptum, er allsendis óvíst.“

Þá er áréttað að aldrei hafi verið ráðstafað hærra hlutfalli af leyfilegum hámarksafla í þorski til strandveiða en nú á þessu sumri.