Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hótuðu þeim sem neituðu að brjóta gegn stjórnarskránni

epa10026403 Vice Chairwoman Rep. Liz Cheney, R-Wyo., (L), hugs Rusty Bowers (2-L), Arizona House Speaker, after his testimony, as Brad Raffensperger (2-R), Georgia Secretary of State, and Gabriel Sterling (R), Georgia Secretary of State Chief Operating Officer, look on, during a public hearing of the House Select Committee to Investigate the January 6th Attack on the US Capitol, on Capitol Hill, Washington, DC, USA, 21 June 2022.  EPA-EFE/Doug Mills / POOL
Liz Cheney, þingmaður Repúblikana, faðmar Rusty Bowers, leiðtoga Repúblikana á ríkisþingi Arizona, eftir vitnisburð hans fyrir rannsóknarnefnd þingsins Mynd: EPA-EFE - New York Times POOL
Embættismenn og starfsmenn kosningayfirvalda í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna báru í gær vitni fyrir rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings, sem hefur árásina á þinghúsið hinn 6. janúar 2021 til skoðunar. Þeir lýstu því hvernig Donald Trump, þáverandi forseti, og nánir samstarfsmenn hans og fylgjendur hafi þrýst á þá um að snúa úrslitum kosninganna Trump í vil um nokkurra vikna skeið í aðdraganda atburðanna við þinghúsið og hótuðu þeim öllu illu þegar þau fóru ekki að vilja þeirra.

Trump og hans hörðustu stuðningsmenn héldu áfram að reyna að ýta þeim út í þetta þrátt fyrir að fjölmargir nánir samstarfsmenn og ráðgjafar forsetans úr röðum Repúblikana hefðu sagt Trump að það færi í bága við hvorutveggja lög viðkomandi ríkja og stjórnarskrá Bandaríkjanna, að snúa úrslitum kosninganna.

Starfsfólk kjörstjórna, embættismenn og kosnir fulltrúar sem kusu að fylgja lögum og neituðu að fara að vilja forsetans í þessu efni máttu í framhaldinu þola yfirgengilegar, ógnvekjandi, hatursfullar og á stundum rasískar hótanir frá fylgjendum forsetans fyrrverandi, ekki ósvipað varaforsetanum Mike Pence.

Tugir þúsunda hótana

Rusty Bowers, leiðtogi Repúblikana á ríkisþingi Arizona, var á meðal vitna í gær. Hann sagðist hafa rætt við Trump nokkrum dögum eftir kosningarnar en neitar að hafa nokkru sinni ýjað að því að eitthvað hefði verið bogið við kosningarnar í Arizona, enda ekkert hæft í því.

Hann hefði ítrekað beðið Trump og hans menn um að leggja fram einhver gögn sem styddu fullyrðingar þeirra um hið gagnstæða en engin fengið. Þrátt fyrir það hefði Trump þrýst á hann að tryggja að fleiri kjörmenn Repúblikana yrðu sendir á fund kjörmannaráðsins, sem að endingu kýs forsetann, en úrslit kosninganna gáfu tilefni til.

Þessu neitað Bowers staðfastlega og uppskar tugi þúsunda tölvupósta, hljóð- og textaskilaboða frá fylgjendum Trumps, þar sem honum var hótað öllu illu. Auk þess ók fólk úr þessum hópi reglulega að og framhjá heimili hans um helgar með háreysti, hótunum og aðdróttunum um hina aðskiljanlegustu glæpi sem hann átti að hafa gerst sekur um, svo sem um að hann væri barnaníðingur og gjörspilltur stjórnmálamaður.