Aldrei fleira flóttafólk komið til landsins

Refugees walk after fleeing the war from neighbouring Ukraine at the border crossing in Medyka, southeastern Poland, Friday, April 8, 2022. (AP Photo/Sergei Grits)
 Mynd: AP
Aldrei hafa fleiri flóttamenn komið til landsins en á þessu ári. Frá áramótum hafa alls 1887 flóttamenn komið, þar af 1215 frá Úkraínu. Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðastjóri vegna komu flóttamanna frá Úkraínu, segist eiga von á að flóttamönnum taki að fjölga með haustinu.

Á hverjum degi koma nú sex til átta flóttamenn til landsins en búast má við að sú tala fari hækkandi þegar líður á haustið.

Gylfi segir að vel gangi að útvega fólkinu vinnu, rétt yfir þrjú hundruð manns hafi fengið atvinnu í gegnum Vinnumálastofnun og einhverjir fundið vinnu sjálfir. Erfiðara er að finna húsnæði, skammtímaúrræði Útlendingastofnunar eru þéttsetin og horft er út fyrir borgarmörkin.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðastjóri vegna komu flóttamanna frá Úkraínu.

„Það sem að hefur kannski verið að stríða okkur er það að það er náttúrulega skortur á leiguhúsnæði. Þar af leiðandi er fólk kannski lengur í þessum skammtímaúrræðum heldur en við vorum að vonast eftir,“ segir Gylfi.

„Ástæðan fyrir því að fólk er lengur er bæði það að það er skortur á leiguhúsnæði á landinu öllu, sem og leiguverð er tiltölulega hátt á Íslandi og því reynist fólki erfiðara að fara úr skammtímahúsnæðinu okkar heldur en við vorum að vonast eftir.“

Flóttamannastraumurinn til landsins gæti nálgast 3.000 á þessu ári

Straumur flóttamanna til landsins hefur aldrei verið þyngri. Gylfi heldur að þegar mest var hafi tala flóttamanna verið í kringum ellefu eða tólf hundruð yfir heilt ár.

„Við sjáum það að með þessu áframhaldi þá muni flóttamannastraumurinn til Íslands á þessu ári hugsanlega nálgast þrjú þúsund og við þurfum að miða okkar viðbragð við það að við getum tekið á móti slíkum fjölda.“