Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Aftökum fjölgar ár frá ári í Íran

epa09646272 Nada Al-Nashif, the UN Deputy High Commissioner for Human Rights, delivers her statement during the Human Rights Council special session on 'the grave human rights situation in Ethiopia,' at the European headquarters of the United Nations in Geneva, Switzerland, 17 December 2021.  EPA-EFE/SALVATORE DI NOLFI
 Mynd: epa
Yfirvöld í Íran tóku yfir 100 manns af lífi á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Antonios Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um málefni Írans. Nada Al-Nashif, aðstoðarframkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, kynnti skýrsluna fyrir Mannréttindaráði samtakanna í Genf í gær. Hún sagði aftökum hafa farið fjölgandi í Íran á síðustu árum og harmaði að svo virtist sem sú óheillaþróun héldi áfram.

„260 voru tekin af lífi [í Íran] árið 2020, en minnst 310 árið 2021, þar af minnst 14 konur.“  Af þessari nýjustu skýrslu megi ráða, að aftökum fari enn fjölgandi í landinu á þessu ári. 

Frá fyrsta janúar til 20. mars, sagði Al-Nashif, voru minnst 105 tekin af lífi, mörg þeirra úr jaðar- og minnihlutahópum. Í skýrslunni eru einnig viðraðar þungar áhyggjur af fjölgun dauðarefsinga fyrir glæpi sem óvíða teljast dauðasök, þar á meðal fíkniefnabrot.

„Haldið er áfram að dæma fólk til dauða fyrir sakir sem ekki flokkast undir „alvarlegustu brot“ og með aðferðum sem eru ósamrýmanlegar kröfunni um réttláta málsmeðferð,“ sagði Al-Nashif. Í mars síðastliðnum, sagði hún, voru 52 fangar sem dæmdir voru til dauða fyrir fíkniefnabrot færðir til aftöku í Adelabad-fangelsinu í Shiraz-borg.

Börn dæmd til dauða og tekin af lífi

Í ávarpi sínu fordæmdi Al-Nashif líka að Íranar skuli enn dæma börn til dauða, í trássi við alþjóðalög. Sagði hún minnst tvö ungmenni sem ekki voru orðin 18 ára þegar þau frömdu brotin sem þau voru dæmd fyrir hafa verið tekin af lífi frá því í ágúst í fyrra til mars í ár, og að minnst 85 ungir brotamenn séu enn á „dauðadeild“ í írönskum fangelsum.